Múmínland rís í Kjarnaskógi – ævintýragarður fyrir allar kynslóðir

Nýtt ævintýraleiksvæði helgað Múmínálfunum úr verkum Tove Jansson er nú í uppbyggingu í Kjarnaskógi, þar sem bláa sívala Múmínhúsið hefur þegar risið.

Verkefnið, sem unnið er í samstarfi við Akureyrarbæ, stefnir á að því að skapa heilan Múmínheim í skógarlundi rétt hjá áður byggðu kanínuþemaleiksvæði.

Auglýsing

Ingólfur Jóhannsson, framkvæmdastjóri Skógræktarfélags Eyfirðinga, segir markmiðið vera að endurgera eldra leiksvæði í nýrri mynd.

„Við vildum skapa eitthvað sem höfðar til bæði barna og fullorðinna, svæði sem vekur ævintýraanda og tengir kynslóðir saman.“

Frá Múmínhúsinu verður svo lagður hringlaga stígur inn í karaktermikinn trjálund þar sem gestir geta upplifað sögurnar með eigin augum.

Þar verður meðal annars hægt að ganga yfir brýr, skoða báta og tjaldbústaði sem minna á heimkynni sögupersóna eins og Míu litlu og fleiri.

Með notkun QR-kóða verður ætlunin að láta sögurnar lifna við í símum gesta.

Ingólfur segir að fyrstu hlutar svæðisins, þar á meðal Múmínhúsið, verði aðgengilegir síðar í sumar og fleiri viðbætur muni bætast við eftir því sem fjármagn leyfir.

„Þetta er verkefni sem byggir á samkennd og sköpun, og gefur fjölskyldum tækifæri til að njóta náttúrunnar saman, ömmur, afar og barnabörn,“ segir hann og bætir við að hann hafi sjálfur alist upp við Múmínævintýrin, rétt eins og barnabarnið hans.

Kjarnaskógur verður því á næstu misserum vettvangur fyrir nýjan Múmínheim þar sem ímyndunaraflið fær lausan tauminn og fortíð og nútíð mætast í leik og samveru.

Fréttin birtist fyrst á Akureyri.net

Auglýsing

læk

Auglýsing

Fréttir

Auglýsing