Nemendur FSU söfnuðu 420 þúsund krónum til styrktar SÁÁ

Í síðustu viku fór fram Góðgerðarvika í Fjölbrautaskólanum á Suðurlandi (FSU), en hún er ein af stærstu og skemmtilegustu viðburðarvikum ársins í skólanum.

Nemendur og kennarar sameinuðust um að safna fé fyrir gott málefni og skapa gleði og samhug í leiðinni.

Auglýsing

Að þessu sinni ákvað skólinn að styrkja SÁÁ, og söfnuðust alls 420.000 krónur sem renna óskiptar til samtakanna.

Skapandi áskoranir og fjör í skólanum

Góðgerðarvika er orðinn fastur liður í skólastarfinu og hefur það markmið að efla samkennd og samfélagslega ábyrgð meðal nemenda.

Vikan einkenndist af fjölbreyttum og skemmtilegum áskorunum þar sem bæði nemendur og kennarar tóku virkan þátt.

Á meðal atriða vikunnar má nefna tískusýningu kennara, hjólreiðar frá Hveragerði til Selfoss, spicy noodle challenge, „rjóma formann“, að gata eyrun, skríða í skólann og kennara í trúðabúningi.

Í hvert sinn sem einhver tók áskorun, rann fjárhæð til styrktar SÁÁ.

„Svona framtak sýnir hvað samstaða getur gert“

Andrúmsloftið í skólanum var líflegt alla vikuna, fólk hvatti hvert annað áfram, hló og safnaði með stolti.

„Það gleður okkur óendanlega að sjá ungt fólk taka svona fallega höndum saman fyrir málefni sem skiptir svo marga máli,“ segir Anna Hildur, formaður SÁÁ.

„Svona framtak sýnir að samstaða, húmor og hjartahlýja geta haft raunveruleg áhrif. Við hjá SÁÁ erum innilega þakklát fyrir stuðninginn frá FSU og öllum þeim sem tóku þátt í Góðgerðarvikunni, þetta skiptir miklu máli.“

Hjartans þakkir til FSU

SÁÁ sendir FSU og þátttakendum kærar þakkir fyrir að leggja sitt af mörkum til að styðja við fólk og fjölskyldur sem glíma við fíkn.

Góðgerðarvika FSU er skýr áminning um að góðverk þurfa ekki alltaf að vera alvarleg, þau geta líka verið fyndin og skemmtileg.

Auglýsing

læk

Auglýsing

Fréttir

Auglýsing