Nýkjörinn borgarstjóri í Þýskalandi í lífshættu eftir hnífstunguárás

Iris Stalzer, nýkjörin borgarstjóri í Herdecke í Þýskalandi, liggur alvarlega slösuð á sjúkrahúsi eftir að hafa verið stungin ítrekað fyrir utan heimili sitt í Herdecke Herrentisch í morgun.

Samkvæmt þýska miðlinum Bild fann sonur hennar hana alblóðuga á heimili fjölskyldunnar.

Auglýsing

Talið er að Stalzer, 57 ára, hafi verið stungin margoft í kvið og bak af hópi manna úti á götu.

Lögregla hefur handtekið 15 ára ættleiddan son Stalzer, en hann og 17 ára dóttir hennar hringdu í neyðarlínuna.

Lögreglan rannsakar nú hvort framburður drengsins um árás manna fyrir utan heimilið standist, en ekki er útilokað að fleiri aðilar hafi komið við sögu.

Iris Stalzer er lögfræðingur að mennt og sérfræðingur í vinnurétti.

Hún var kjörin borgarstjóri fyrir hönd flokksins SPD þann 28. september síðastliðinn með 52,2% atkvæða og átti að hefja störf í nóvember.

Hún skrifaði í nýlegri færslu á Instagram: „Ég hlakka til að hefja störf, full af gleði, eldmóði og virðingu fyrir þessu verkefni.“

Nú rignir inn baráttukveðjum undir þessa sömu færslu.

Friedrich Merz, kanslari Þýskalands, fordæmdi árásina harðlega og kallaði hana „viðbjóðslega“.

Hann sagðist biðja fyrir heilsu borgarstjórans og vottaði fjölskyldu hennar samúð sína.

Stalzer er gift og á tvö börn á unglingsaldri.

Hún hefur búið í Herdecke nær alla sína ævi.

Hvorki hefur verið útilokað né staðfest að árásin tengist stjórnmálum.

Lögreglan biður almenning um aðstoð við að upplýsa málið.

Auglýsing

læk

Auglýsing

Fréttir

Auglýsing