Fjármála- og efnahagsráðherra getur ekki svarað því hver kostnaður ríkisins hefur verið vegna kulnunar meðal opinberra starfsmanna undanfarin ár.
Þetta kemur fram í svari við skriflegri fyrirspurn sem Diljá Mist Einarsdóttur lagði fram á Alþingi.
Engar upplýsingar um eðli veikinda
Í svari ráðherra kemur fram að samkvæmt kjarasamningum beri starfsmanni að tilkynna um óvinnufærni vegna veikinda eða slyss, en vinnuveitandi fái ekki upplýsingar um eðli veikindanna.
„Veikindavottorð vísa til almennra veikinda og ekki koma fram nánari upplýsingar um eðli veikindanna,“ segir í svarinu.

Þá er bent á að samkvæmt lögum nr. 90/2018 um persónuvernd geti vinnuveitandi ekki óskað eftir ástæðu veikinda og starfsmenn séu ekki skyldugir til að upplýsa um slíkt.
Ekki hægt að skrá kulnun sérstaklega
Af þessum sökum eru veikindaskráningar ríkisstofnana og sveitarfélaga ekki flokkaðar eftir ástæðu veikinda.
„Skráning veikinda er því almenns eðlis í öllum viðveru- og tímaskráningarkerfum ríkisins og ekki hægt að greina kostnað vegna kulnunar sérstaklega,“ segir fjármála- og efnahagsráðherra.
„Vandinn jafnvel enn stærri en maður getur ímyndað sér“
Þórarinn Hjartarson, stjórnandi hlaðvarpsins Ein pæling, segir niðurstöðuna sýna að umfang kulnunar sé líklega meira en hingað til hafi verið talið.
„Það hefur lengi legið ljóst fyrir að kulnunarbransinn er langstærsti vandi íslensks vinnumarkaðar,“ skrifar hann á X.
„En þetta svar fjármálaráðuneytisins ber þess merki að vandinn er jafnvel enn stærri en maður getur ímyndað sér.“
Það hefur lengi legið ljóst fyrir að kulnunarbransinn er langstærsti vandi íslensk vinnumarkaðar.
En þetta svar fjármálaráðuneytisins ber þess merki að vandinn er jafnvel enn stærri en maður getur ímyndað sér. pic.twitter.com/cKrK8IsY9O
— Thorarinn Hjartarson (@TotiHjartar) October 20, 2025