Óskar Steinn Ómarsson skrifaði færslu á Facebook þar sem hann vekur athygli á því að félagsmiðstöðin HHH – Hinsegin hittingar í Hafnarfirði – hafi ekki hafið starfsemi sína í haust, þrátt fyrir að starf annarra félagsmiðstöðva bæjarins séu löngu hafið.
Óskar segir að HHH hefur verið rekin árum saman fyrir hinsegin ungmenni á mið- og unglingastigi grunnskóla, með starfsemi einu sinni í viku.
„Nú er hins vegar kominn 14. október og enn hefur ekkert spurst til hinsegin félagsmiðstöðvarinnar,“ skrifar Óskar, sem áður starfaði sjálfur í HHH.
Hann bendir á að félagsmiðstöðin hafi reynst mörgum ungmennum mikilvægur samastaður þar sem þau fái tækifæri til að rjúfa félagslega einangrun og kynnast jafningjum í öruggu umhverfi.
Áhrif hatrammrar umræðu
Óskar segir að það sé sérstaklega slæmt að ekki sé boðið upp á slíkt rými nú þegar fjölmiðlaumræða um hinsegin fólk hafi verið hatrömm undanfarnar vikur.
„Það hefur vafalaust haft áhrif á líðan hinsegin ungmenna í samfélaginu,“ segir hann og bætir við að það sé „vont að ekki sé hægt að taka utan um þennan viðkvæma hóp.“
Minnir á lokun Hamarsins
Hann rifjar einnig upp ákvörðun meirihluta bæjarstjórnar í maí í fyrra um að loka ungmennahúsinu Hamrinum.
Sú ákvörðun hafi verið tekin án undirbúnings og hafi haft alvarlegar afleiðingar fyrir tómstundastarf í bænum.
„Það liðu heilir 15 mánuðir þar til nýtt ungmennahús opnaði dyr sínar í Nýsköpunarsetrinu nú í haust,“ segir hann.
Í Hamrinum hafi meðal annars verið rekið hópastarf fyrir hinsegin ungmenni á aldrinum 16 til 25 ára, sem ekki hafi verið í boði í 15 mánuði.
Með lokuninni hafi bæjarfélagið jafnframt misst 14 milljóna króna styrk frá ríkinu sem ætlaður var tómstundastarfi fyrir ungmenni af erlendum uppruna.
Fyrrum starfsmenn sendu bréf
Í færslunni kemur fram að nokkrir fyrrum starfsmenn HHH hafi sent bréf til bæjarstjóra, embættismanna og fræðsluráðs þar sem þeir lýstu áhyggjum og óánægju með stöðu mála.
„Við teljum það bæði óásættanlegt og óvirðingu við ungmennin og starfið sem hefur verið byggt upp í gegnum árin, að láta málið dragast áfram án sýnilegra aðgerða,“ segir í bréfinu.
Kallar eftir forgangsröðun
Að lokum segir Óskar að nauðsynlegt sé að bæta fjárfestingu í velferð ungmenna í Hafnarfirði og vanda betur til verka þegar kemur að tómstundastarfi.
„Það er óásættanlegt að komið sé svona fram við einhvern viðkvæmasta hóp ungmenna í bæjarfélaginu,“ skrifar hann og bætir við að í kosningunum næsta vor gefist tækifæri til að „skipta um kúrs og forgangsraða betur í þágu ungmennanna okkar.“