Tveir karlmenn á þrítugsaldri og fimm ungmenni hafa verið ákærð fyrir rán og hótanir gegn unglingum en karlmenninirnir eru auk þess ákærðir fyrir líkamsárásir og skemmdarverk.
Málið er umfangsmikið og nær yfir nokkra mánuði árið 2024, en brotin beinast að unglingum á svæðinu.
Neyddu dreng til millifærslu í strætisvagni
Eitt atvikið átti sér stað í ágúst 2024 í strætisvagni númer 1 í Hafnarfirði, þar sem tveir karlmenn og tveir undir lögaldri umkringdu unglingsdreng sem sat aftast í vagninum.
Samkvæmt ákæru hótuðu þeir honum að hann fengi ekki að fara út nema leggja pening inn á þá.
Drengurinn millifærði ellefu þúsund krónur áður en honum var leyft að yfirgefa vagninn.
Rændu síma og millifærðu af reikningum
Daginn eftir, við Hraunvallaskóla, réðust sömu menn og fimm ungmenni á þrjá aðra unglinga.
Einn karlmannanna reif síma úr höndum drengs, opnaði hann með andlitsgreiningu og millifærði fjörutíu þúsund krónur af reikningi hans.
Að lokum tók forsprakki hópsins mynd af fórnarlömbunum og hótaði þeim líkamsmeiðingum ef þau segðu frá.
Hótaði unglingi með skóflu við Víðistaðatún
Viku síðar beittu mennirnir öðrum unglingi ofbeldi við Víðistaðatún.
Þeir ógnuðu honum með skóflu, tóku síma hans og millifærðu 62 þúsund krónur af reikningi hans.
Síðan neyddu þeir vin drengsins til að fylgja sér í hraðbanka Íslandsbanka og Landsbankans í Hafnarfirði, auk verslunar Iceland við Staðarberg, í þeirri von að taka út peningana.
Tilraunin bar þó ekki árangur.
Einnig ákærðir fyrir líkamsárás og skemmdarverk
Yngri karlmaðurinn er jafnframt ákærður fyrir líkamsárás við Fjölbrautaskólann í Breiðholti árið 2023, þar sem hann sló dreng undir lögaldri í höfuð og líkama.
Báðir karlmennirnir eru einnig ákærðir fyrir að hafa slegið með hamri í loftljós og öryggismyndavél í kjallara undir Ráðhúsi Reykjavíkur.
Fíkniefni, þjófnaður og vopnaburður
Eldri maðurinn, 22 ára, er auk þess ákærður fyrir þjófnað á snyrtivörum að andvirði 39 þúsund króna úr Hagkaupum í Kringlunni í janúar 2024.
Hann er einnig ákærður fyrir vörslu neysluskammta af fíkniefnum og að hafa verið með stunguvopn á sér í febrúar sama ár.
Krefjast miskabóta
Réttargæslumenn þolenda krefjast miskabóta upp á tvær milljónir króna fyrir þann sem var hótað í strætó og 1,5 milljón fyrir hina tvo.
Málið er til meðferðar hjá Héraðsdómi Reykjaness og var þingfest 1. október.
Aðalmeðferð er fyrirhuguð um miðjan nóvember.
Allir ákærðu neita sök.
Eldri karlmaðurinn hefur áður hlotið dóm fyrir margítrekaðan þjófnað árið 2022, þá aðeins 19 ára gamall, og fékk þá þriggja mánaða skilorðsbundinn dóm.
Það var Vísir.is sem sagði fyrst frá.