Ríkislögreglustjóri gagnrýndur fyrir að segja upp reynslumiklum konum á meðan ráðgjafar fá milljónagreiðslur – „Jafnréttið, maður“

Þremur konum í landamæradeild ríkislögreglustjóra, þar á meðal Evu Sigrúnu Óskarsdóttur lögfræðingur, var sagt upp störfum á mánudag, aðeins tveimur dögum eftir að embættið hvatti konur til þátttöku í kvennaverkfallinu.

Uppsagnirnar eiga sér stað á sama tíma og embætti ríkislögreglustjóra og dómsmálaráðuneytið takast á við gagnrýni vegna greiðslna til ráðgjafafyrirtækisins Intru, sem hlaut samtals um 130 milljónir króna fyrir ráðgjöf frá embættinu.

Auglýsing

Andrúmsloftið innan embættisins hefur verið þungt, og samkvæmt heimildum Vísis segja starfsmenn að uppsagnir reynslumikilla kvenna í landamæradeild skjóti skökku við í ljósi fjármálabruðlsins.

Á starfsmannafundi í gær kom fram að einungis fimm starfsmönnum í embættinu hefði í raun verið sagt upp, þrír þeirra konur úr landamæradeildinni. Samkvæmt Vísis eru nú engar konur eftir í deildinni.

„Okkur var kastað fyrir ljónin“

Ein þeirra sem misstu vinnuna er Eva Sigrún Óskarsdóttir, lögfræðingur og fyrrverandi deildarstjóri í landamæradeildinni.

Í opinni Facebook færslu segist hún ekki lengur geta orða bundist.

„Ég er ein af þessum þremur konum, eða reynsluboltum eins og fréttin orðar svo vel, í landamæradeild ríkislögreglustjóra sem var sagt upp störfum á mánudagsmorgun. Þetta gerðist ca. um leið og embættið opnaði aftur eftir að hafa hvatt konur til að taka þátt í kvennaverkfallinu á föstudag. Jafnréttið maður,“ skrifar hún.

Eva lýsir því að uppsagnirnar hafi komið þeim algjörlega í opna skjöldu, sérstaklega þar sem þær þrjár hafi nýlega rætt við stjórnendur um áhyggjur sínar af framgöngu nýs deildarstjóra.

Hún bendir á að sú sérþekking sem tapist sé ómetanleg.

„Það er enginn sem speglar nákvæmlega þá þekkingu og reynslu sem ég hef aflað mér síðustu rúmu fimm árin og ólíklegt að svo verði á næstu mánuðum og jafnvel árum,“ segir hún.

Sérfræðing í evrópsku meistaranámi sagt upp

Eva, sem sinnt hefur starfi lögfræðings í alþjóða- og landamæramálum síðan 2020, segir að hún hafi fengið inngöngu í evrópskt meistaranám Frontex í „Strategic Border Management,“ fyrst Íslendinga.

Embættið hafi veitt henni formlegt leyfi til að sækja námið samhliða störfum, en nú sé framtíð hennar í náminu óljós eftir uppsögnina.

„Niðurfelling starfs míns og uppsögn mín hefur nú verið tilkynnt til Frontex sem hafa þó eflaust ekki séð slíka atburðarrás fyrr,“ segir hún.

Engin viðbrögð frá stjórnendum

Eva segir enginn úr stjórn embættisins hafa haft samband við konurnar eftir uppsagnirnar.

„Það er amk ekki sorg yfir þessari hagræðingu, því þessir sömu stjórnendur hafa ekki haft samband við okkur í vikunni til að lýsa yfir samkennd, vonbrigðum eða þakkað okkur fyrir vel unnin störf. Eða bara svarað í síma. Það er nefnilega alveg símasamband frá Tenerife.“

Á meðan ráðgjafar rukkuðu fyrir Jysk og píluspjöld

Í ljósi þess að Intra, ráðgjafafyrirtæki sem starfað hefur fyrir embættið, hefur rukkað tugi þúsunda fyrir verkefni á borð við að „skreppa í Jysk og íhuga uppsetningu píluspjalds“, segja starfsmenn að uppsagnir kvennanna séu bæði táknrænar og írónískar.

Forsætisráðherra Kristrún Frostadóttir sagði málið litið mjög alvarlegum augum og lagði áherslu á að farið yrði „vel með fé“ innan stjórnsýslunnar.

Eva Sigrún segir sig þó ekki ætla að veita viðtöl um málið.

„Ég hef ekkert að fela og þessi færsla er því opin öllum sem hafa áhuga,“ skrifar hún.

Auglýsing

læk

Auglýsing

Fréttir

Auglýsing