Auglýsing

Segir starfsfólk Brotkasts hafa hótað sér lífláti

Í viðtali í morgunþættinum Bítið á Bylgjunni sakaði Arna Magnea Danks, leikkona og aktívisti, starfsfólk hlaðvarpsveitunnar Brotkasts um að hafa hótað sér lífláti í einkaskilaboðum.

Eins og Nútíminn sagði frá fyrr í dag voru Arna Magnea og Þórarinn Hjartarson að ræða „vókið“ svokallaða og hina ýmsu kima þess.

„Þegar þú færð líflátshótanir í einkaskilaboðum og ert afmennskuð á samfélagsmiðlum í tíma og ótíma, meðal annars frá Brotkast-fólkinu…“

Segir Brotkasts fólkið“ hafa hótað sér

Þegar leið á umræðuna snerti Arna Magnea á vægast sagt alvarlegum hótunum sem hún segist hafa orðið fyrir:

„Þú veist, það er mjög erfitt að bera virðingu fyrir fólki sem ber enga virðingu fyrir þér og hverju þú ert,“
sagði Arna.

„Þegar þú færð líflátshótanir í einkaskilaboðum og ert afmennskuð á samfélagsmiðlum í tíma og ótíma, meðal annars frá Brotkast-fólkinu…“ sagði Arna en fékk ekki að halda lengra.

Þórarinn Hjartarson, hlaðvarpsstjórnandi og viðmælandi hennar í þættinum, greip strax inn í og sagðist ekki tengdur Brotkastinu. „Ég er ekki þar,“ sagði hann stuttlega.

Arna brást við með því að biðjast afsökunar og kallaði það misskilning af sinni hálfu.

„Ég hélt að þú værir í Brotkastinu. Þá biðst ég afsökunar,“ sagði Arna.

Engu að síður hélt Arna fast í að árásirnar væru raunverulegar og að það væri „svolítið erfitt að bera virðingu fyrir fólki“ þegar slíkt á sér stað ítrekað.

Nefndi engan tiltekinn starfsmann

Arna Magnea tilgreindi ekki um hvaða starfsmann eða starfsmenn Brotkasts hún var að tala um en á Brotkastinu eru skráðir eftirfarandi þættir:

Harmageddon og Spjallið sem báðir eru í umsjón Frosta Logasonar.

Fullorðins sem Kidda Svarfdal sér um.

Til Hlítar með Evu Hauksdóttur.

Hluthafaspjallið með þeim Jóni G. Haukssyni og Sigurði Má Jónssyni.

Norræn Karlmennska í umsjón Jóns Þormars.

Blekaðir í umsjón Dags Gunnars og Ólafs Laufdals.

Axel Pétur sem nefndur er eftir umsjónarmanni þáttarins.

„Furðu lostinn yfir þessum ummælum“

Nútíminn hafði samband við Frosta Logason, einn af stofnendum Brotkasts og spurði hvort hann kannaðist við ásakanir Örnu Magneu.

„Ég satt að segja er bara alveg furðu lostinn yfir þessum ummælum.

Ég myndi gjarnan vilja að Arna Magnea útskýrði þetta nánar því ég á mjög bágt með að trúa að í þessu sé nokkuð sannleikskorn.

Mér heyrðist reyndar á þessari umræðu þarna í morgun að Arna Magnea væri haldin margvíslegum ranghugmyndum um Brotkast og það góða starfsfólk sem þar vinnur.

Við höfum vissulega tekið undir ýmis konar gagnrýni á vókið og transhugmyndafræðina, eins og það að konur séu í dag látnar etja kappi við transkonur í hinum ýmsu keppnisíþróttum.

En í því felst ekkert hatur eða vanvirðing gagnvart transfólki.

En þetta virðist vera orðin viðurkennd aðferð í dag, að bæla niður gagnrýnisraddir með ásökunum um hatur og jafnvel morðhótanir án þess að það sé stutt með neinum haldbærum gögnum.

Það er auðvitað dapurlegt að umræðan skuli vera á þessu plani en ég væri gjarnan til í að eiga málefnalegt samtal við Örnu Magneu um þessi mál og vona að hún sé á sama máli.

Samræður eru alltaf af hinu góða og í raun nauðsynlegar til að við getum lært að bera virðingu fyrir ólíkum skoðunum,“ sagði Frosti Logason.

Hægt er að heyra ummæli Örnu hér þegar 26:48 eru liðnar af upptökunni.

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing