Segir valdastéttina ófæra um að ræða stóru spurningar samtímans – „þjóðernisvakning í uppsiglingu“

Snorri Másson, nýkjörinn varaformaður Miðflokksins og þingmaður, fjallar í nýrri færslu á Facebook um það sem hann kallar „vinsamlega þjóðernisvakningu“ og gagnrýnir jafnframt valdastétt samtímans fyrir að sýna sömu viðbrögð og embættismenn 19. aldar höfðu gagnvart Fjölnismönnum.

Segir valdastéttina hræðast nýja strauma

„Á nítjándu öld var það stétt presta og embættismanna sem brást hin versta við ferskum andblæ tímans. Á okkar dögum erum við hins vegar komin með hóp miðaldra fylgihnatta Ríkisútvarpsins sem heldur í sín ítök með æði misvandaðri álitsgjöf á Facebook,“ skrifar Snorri.

Auglýsing

Hann segir að hópurinn sé ekki tilbúinn að ræða það sem hann kallar stórar spurningar samtímans og að helsta aðferð þeirra sé að þykjast ekki skilja um hvað sé verið að ræða.

Lestinni hrósað fyrir forvitni um hægri hugmyndir

Í færslunni segir Snorri að hann hafi rætt þessi mál í líflegu viðtali við útvarps- og blaðamanninn Kristján Guðjónsson, þar sem þeir hafi farið um víðan völl og rætt hugmyndir sem „hrífa unga fólkið með sér, í auknum mæli alla leið inn í Miðflokkinn.“

Þá hrósar hann þættinum Lestinni á Rás 1 og segir þar ríkja einlæga forvitni um nýja hugmyndastrauma, sem hann telur flest alla hægra megin við miðju.

„Þeir nenna sífellt minna að tala við woke-istana,“ skrifar hann og segir að sú stefna sé orðin „kirfilega stofnanavædd“.

„Þangað leitar klárinn sem hann er kvaldastur“

Snorri lýkur færslunni á kaldhæðni og segir að það megi velta fyrir sér hvort útvarpsmennirnir í Lestinni séu í raun að dragast sjálfir með í hugmyndastraumunum sem þeir fjalla um.

„Ef við föllumst á að þeir verði eilífir vinstri-libbar, þá situr aðeins eftir ein önnur skýring á nýrri stefnu Lestarinnar um að hafa þar daginn inn og út viðtöl við unga hægrimenn – nefnilega að þangað leiti klárinn sem hann er kvaldastur.“

Auglýsing

læk

Auglýsing

Fréttir

Auglýsing