Sigmundur Davíð sakar ráðherra um rangfærslur og sýndarmennsku

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, fer hörðum orðum um þingmenn og ráðherra ríkisstjórnarinnar í nýrri færslu á samfélagsmiðlum.

Þar sakar hann stjórnarliða um að skrumskæla afstöðu Miðflokksins til útlendingamála og afvegaleiða umræðuna með því að koma fram með ósannar og villandi fullyrðingar.

Segir ráðherra fara með ósannindi

Auglýsing

Í færslunni gagnrýnir Sigmundur sérstaklega Þorbjörgu Gunnlaugsdóttur dómsmálaráðherra, sem hafi nýverið komið fram í hádegisfréttum og gefið í skyn að Miðflokkurinn væri andvígur tillögum hennar í útlendingamálum.

Hann segir það algerlega úr lausu lofti gripið.

„Við höfum hvorki sagt né gefið til kynna slíka andstöðu. Þvert á móti. Þegar sjálfstæðismenn boðuðu þessi sömu frumvörp á sínum tíma rákum við ítrekað á eftir þeim og bentum á að þau væru ófullnægjandi, að það þyrfti að ganga mun lengra. Þorbjörg og hennar flokksfélagar voru hins vegar þeir sem hægðu á ferlinu með því að tala um skort á mannúð,“ skrifar Sigmundur.

Hann bætir því við að skömmu síðar hafi Sigurjón Þórðarson, bandamaður Þorbjargar innan stjórnarmeirihlutans, stigið fram með það sem hann kallar „enn undarlegri hugaróra“.

Þar hafi Sigurjón hrósað ríkisstjórninni fyrir árangur í útlendingamálum, með dæmum sem annaðhvort séu gömul eða hafi aldrei verið framkvæmd.

„Hann nefnir nokkur dæmi sem eiga það flest sameiginlegt að hafa hvorki verið forgangsmál hjá ríkisstjórninni né komið til framkvæmda,“ segir Sigmundur.

Segir flokkinn andvígan leigubílafrumvarpi

Þá gagnrýnir hann jafnframt að Sigurjón hafi sakað Miðflokkinn um að hindra framgang leigubílafrumvarps innviðaráðherra.

Að sögn Sigmundar er það fjarri lagi.

„Við höfum stutt málið og varið það í þinginu, ólíkt sumum stjórnarliðum. En af hverju verja þeir það ekki sjálfir? Vegna þess að meirihlutinn styður málið í raun ekki. Framlagningin var einungis sýndarmennska sem ríkisstjórnin hafði engan raunverulegan áhuga á að fylgja eftir.“

Í lok færslunnar segir Sigmundur Þórðarson hafa gengið svo langt að reyna að eigna honum sjálfum útlendingalögin frá 2016–2017, lög sem hann segir hafa verið byrjunin á vandræðunum í málaflokknum.

„Þessi tilraun er ekki bara röng heldur óheiðarleg. Ég var andvígur þessum lögum frá upphafi, hef ítrekað bent á þau sem upphaf vanda útlendingamála og kallað eftir nýjum heildarlögum.“

„Hvað býr eiginlega að baki?“

Sigmundur lýkur færslu sinni á því að velta upp hvað liggi að baki þessari árásarstefnu stjórnarliða.

Hann segir ekki unnt að útiloka að þar búi að baki óöryggi eða jafnvel vanlíðan.

„Það er erfitt að átta sig á markmiðinu með þessari atlögu nema að það sé tilraun til að búa til einhvers konar andveruleika, og hylma þannig yfir vanhæfni eigin stjórnvalda.“

Auglýsing

læk

Auglýsing

Fréttir

Auglýsing