Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, gagnrýnir harðlega hversu lítil umfjöllun var um alvarlega sveðjuárás sem átti sér stað um miðjan dag í íbúahverfi í Úlfarsárdal í gær.
Í færslu á Facebook spyr hann hvort íslenskir fjölmiðlar séu farnir að líta vísvitandi fram hjá vaxandi ofbeldisvanda í samfélaginu.
„Það var furðulegt hvað fréttin fékk litla athygli,“ skrifar Sigmundur og bendir á að málið hafi hvorki verið tekið fyrir í aðalfréttatíma Sjónvarpsins né fengið dýpri umfjöllun á helstu vefmiðlum.
Hann nefnir þó að stutt örfrétt hafi birst í miðjum tíufréttum RÚV, en jafnvel þá virtist það vera einungis vegna þess að áhorfandi hafi sent inn myndband af vettvangi.
Sigmundur segir umfjöllunina frá RÚV hafa verið sett fram eins og venjulega dægurfrétt. „Enginn á fréttastofunni hafði áttað sig á því að fleiri myndbönd væru á samfélagsmiðlum,“ skrifar hann og spyr hvort stefnan sé orðin sú „að líta fram hjá því sem er að gerast í samfélaginu“.
Sveðjuárásin um hábjartan dag í Reykjavík var því miður fyrirséð. Það eru öfl sem hata samfélag sitt sem vilja þetta og beita sér af hörku gegn þeim sem elska samfélag sitt og hafa varað við þessu.
Þrjú myndbönd af árásinni eru hér sameinuð í eitt. pic.twitter.com/r7gLQV6zQ5
— Arnar Arinbjarnarson (@arnarar) May 21, 2025
Hann varar við afleiðingum þess að gera ekki alvarlegum atvikum hátt undir höfði og segir sinnuleysi gagnvart vaxandi ofbeldi geta leitt til skelfilegra afleiðinga „sem aldrei verður bætt fyrir“.
Lögregla rannsakar enn árásina sem átti sér stað í íbúð í Úlfarsárdal. Maður sem varð fyrir árásinni hlaut alvarlega áverka af sveðju, en er ekki í lífshættu.