Skólastjóri lýsir ofbeldi í grunnskólum og kallar eftir tafarlausum úrræðum

Sigrún Ólöf Ingólfsdóttir, skólastjóri, lýsir skelfilegu ástandi í opnu bréfi í grunnskólum landsins þar sem starfsfólk hefur ítrekað orðið fyrir líkamsárásum af hálfu nemenda.

Hún segir fjóra kennara hafa verið lamda af sama nemanda innan örfárra daga frá upphafi skólaársins.

Auglýsing

„Kennararnir mínir, stuðningsfulltrúarnir mínir, starfsfólk frístundar og stjórnendurnir mínir hafa verið lamdir af nemendum,“ skrifar hún og bætir við að sumt starfsfólk hafi þurft sálfræðiaðstoð eftir áföll í starfi.

Starfsmenn með áverka og heilahristing

Einn stuðningsfulltrúi fékk mikla áverka á hendi og þurfti stífkrampasprautu eftir árás nemanda.

Annar starfsmaður hlaut heilahristing þegar hann reyndi að vernda barn fyrir árás.

Starfsmaður sem ráðinn var í upphafi skólaárs gafst upp eftir fimm daga vegna endurtekinna árása.

„Það er erfitt að mæta til vinnu og upplifa sig ekki öruggan,“ segir skólastjórinn.

Úrræðaleysi og langar biðraðir

Sigrún segir að þungum nemendamálum hafi fjölgað hratt og að úrræði séu af skornum skammti.

„Bið eftir aðstoð tekur marga mánuði eða ár. Á meðan erum við lamin,“ segir hún.

Hún bendir á að margir nemendur komist ekki að í sérúrræðum og að meira en helmingi umsókna í sérskóla hafi verið hafnað í hennar sveitarfélagi vegna plássleysis.

„Er þetta eins og einum sérskóla hefði verið lokað og nemendur dreifðust í skólana í kring, án þess að fagfólk fylgdi með?“ spyr hún.

Ábyrgð án fjármagns

Skólastjórinn gagnrýnir harðlega fjármögnunarkerfið í skólunum.

„Það fylgir ekki fjármagn með börnum sem lemja önnur börn og starfsfólk,“ skrifar hún og lýsir því hvernig stjórnendur neyðist til að velja á milli þess að styðja við blint barn eða barnið sem beitir ofbeldi.

„Ég þarf að rökstyðja af hverju ég fer yfir fjármagn, en á sama tíma ber ég ábyrgð á því að öll börn fái viðeigandi aðstoð. Það er ekki hægt að verða við hvoru tveggja.“

Símanotkun og próf ekki helsta vandamálið

Sigrún gagnrýnir að opinber umræða um skólamál snúist fyrst og fremst um símanotkun og námsmat.

„Ef við bönnum síma, allir fara í samræmd próf og fá 8 í einkunn, bjargast þá allt?“ spyr hún.

„Áskoranir í skólanum eru svo margar. Kennarar vilja bara fá að kenna þessum 25 börnum sínum í friði.“

Kallar eftir pólitískri ábyrgð

Sigrún hvetur stjórnvöld og sveitarstjórnir til að bregðast tafarlaust við.

Hún segir að skólarnir séu að reyna sitt besta, en án stuðnings verði erfitt að halda í hæft starfsfólk.

„Ég skrifa þessa grein fyrir allt starfsfólk sem hefur lent í áfalli vegna þess að það var lamið í vinnunni,“ segir hún.

„Sveitarstjórnarfólk og ríkisstjórn, setjið fjármagn í framtíð barnanna okkar og styðjum skóla landsins.“

Auglýsing

læk

Auglýsing

Fréttir

Auglýsing