Snorri Másson, þingmaður Miðflokksins, birti í dag harðorðan status á Facebook þar sem hann gagnrýnir nýtt frumvarp ríkisstjórnarinnar um breytingar á inntökuferli í íslenska framhaldsskóla.
Snorri segir frumvarpið ekki fela í sér raunverulegt réttlæti heldur festa svokallaða jákvæða mismunun í lög og draga úr vægi námsárangurs.
Í færslunni bendir Snorri á að lengi hafi verið vitað um ósamræmi í einkunnum milli grunnskóla og að skortur á samræmdum prófum geri inntökuferlið ósanngjarnt.
Rangar aðferðir
Hann gagnrýnir stjórnvöld fyrir að hafna innleiðingu samræmdra lokaprófa, sem hefðu að hans mati getað tryggt jafnræði við inntöku, og í staðinn leggja fram frumvarp sem opnar fyrir aðra mælikvarða, m.a. kyn, fötlun og móðurmál.
„Í stað þess að stjórnvöld boði sanngjarnari leiðir til að meta árangur fólks, er ákveðið að draga einfaldlega úr vægi árangursins sjálfs,“ skrifar hann og segir að frumvarpið virðist miða að því að mismuna á grundvelli ytri þátta í nafni félagslegs réttlætis.
Snorri nefnir einnig kynjakvóta í sumum skólum og varar við að festa slíka stefnu í sessi í öllu kerfinu.
Hann leggur áherslu á að rót vandans þurfi að leysa fyrr í skólakerfinu, fremur en að grípa til kvótakerfa sem hann kallar „blekkingarleik“.
Frumvarpið var lagt fram á Alþingi í gær og má búast við áframhaldandi umræðu um efnið á komandi dögum.