Eftir miklar umræður í þættinum Synir Egils þar sem Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar tók skýra afstöðu gegn vók-hugmyndafræðinni og lenti í hörðum orðaskiptum við rithöfundinn Hallgrím Helgason, hefur hún nú brugðist við á samfélagsmiðlum, með beittum og kaldhæðnum hætti.
Í nýjum Facebook status sem hún birti rétt í þessu segist hún „alls ekki hafa ætlað að valda siðfári“, en viðurkennir þó að það sé „hressandi fyrir alla“ öðru hvoru.
Hún gerir grín að viðbrögðum fólks sem hefur leitað skýringa á orðinu „woke“ á Wikipedia, og segir að miðaldra rad-libbar (rótækir frjálslyndir) hafi líklega „screenshot-að niðurstöðuna og deilt út um allt á Facebook til að sýna að Wikipedia segi að woke sé að vera góð, eins og þau.“
„Krúttin, segi ég nú bara,“ skrifar hún.
Sólveig segist einnig spennt fyrir því að nýta páskafríið í áframhaldandi skrif gegn vók menningunni og lofar „harðorðri skammarræðu í Jesú heilaga nafni“ á Skírdag.
Hlustið á Morrissey
Hún lýkur færslunni með því að gera dálítinn tónlistarlegan útúrdúr, þar sem hún hvetur til að hlustað sé á Morrissey, þrátt fyrir að hann sé „hel-slaufaður“.
Hún segir woke-fólk ekki geta staðist freistinguna heldur „stelst til að hlusta inn á baði, andstutt yfir því að vera svona óþægt og tabú-brjótandi.“
Síðasta skotið er líka beint að þeim sem hún telur hrokafulla og siðapostula:
„Stóri munnur getur verið til vandræða, en vá hvað vil ég frekar vera með svoleiðis en litlu, samanherptu vandlætingar-skeifuna sem þau sem halda að jarðvist þeirra snúist um að dæma lifendur og dauða fara í gegnum lífið með.“