Forsætisráðherra Bretlands, Keir Starmer, kynnti nýlega víðtækar breytingar á innflytjendastefnu landsins á blaðamannafundi í London, þar sem hann lofaði að „innflytjendatölur muni lækka, það er loforð“.
Strangari kröfur
Meðal breytinga sem kynntar voru er að löglegir innflytjendur þurfi héðan í frá að bíða í allt að 10 ár áður en þeir geta sótt um breskan ríkisborgararétt en áður voru það 5 ár.
Auk þess verða gerðar hærri kröfur um enskukunnáttu og menntun eða hæfni innflytjenda.
Starmer gagnrýndi fyrri ríkisstjórnir harðlega og sagði „tilraun í opnum landamærum“ hafa valdið „ómælanlegum skaða“.
Hann sagði að Bretland stæði frammi fyrir því að verða að „eyju ókunnugra“ ef ekki yrði gripið til harðari aðgerða.
Ótrúlegar tölur
Samkvæmt opinberum gögnum voru yfir 700.000 fleiri sem fluttu löglega til Bretlands en þeir sem yfirgáfu landið á 12 mánaða tímabili fram í júní 2024.
Það hefur sett aukið álag á húsnæðismarkað og opinbera þjónustu.
Í breytingunum felst þó ekki algjört lokun: Starmer sagðist vilja halda opinni leið fyrir mikilvæga starfsmenn, t.d. heilbrigðisstarfsfólk og verkfræðinga, sem gætu fengið hraðari afgreiðslu í umsóknum um ríkisborgararétt.
Útlendingar sem útskrifast frá breskum háskólum mega nú aðeins dvelja í landinu í 18 mánuði eftir útskrift, í stað tveggja ára áður.
Þá verður erlendum félagsliðum ekki lengur heimilt að sækja um störf í Bretlandi, sem gæti haft veruleg áhrif á þá grein.
Setja þrýsting á Starmer
Breytingarnar koma í kjölfar sveitarstjórnarkosninga þar sem flokkur Nigel Farage, Reform UK, vann afgerandi sigur.
Flokkurinn hlaut 677 sveitarstjórnasæti af u.þ.b. 1.600, fleiri en nokkur annar flokkur og náði meirihluta í 10 héraðsstjórnum, þar á meðal í Kent, Derbyshire og Lancashire.
Auk þess vann Reform UK tvær nýstofnaðar borgarstjórakosningar og náði þingmannssæti í aukakosningum í Runcorn og Helsby.
Þessi árangur hefur sett mikinn þrýsting á bæði Verkamannaflokkinn og Íhaldsflokkinn, þar sem Reform UK dregur til sín fylgi úr báðum áttum með harðri andstöðu gegn innflytjendum.
Farage brást við tillögunum með því að kalla Starmer „hræsnara sem trúir á opin landamæri“.
Ríkisstjórnin vonast til að harðari stefna dragi úr stuðningi við þjóðernissinna, en fjöldi fólks sem kemur ólöglega yfir Ermarsundið hefur aukist á þessu ári, sem veitir Farage og flokk hans aukið pólitískt forskot.