Steinunn Ólína: „Evrópa liggur eins og lúinn hermaður með bandaríska fánann í fanginu“

Leikkonan Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir birti í dag færslu á Facebook þar sem hún gagnrýnir stöðu Evrópu gagnvart Bandaríkjunum.

Hún segir álfuna hafa tapað sjálfstæði sínu og orðið að „fylgitungli Washington“ eftir áratuga blinda hollustu.

Auglýsing

„Evrópa liggur nú eins og lúinn hermaður sem heldur enn á bandaríska fánanum, ekki af heilindum, heldur af gömlum vana,“ skrifar Steinunn og bætir við að álfan sitji nú uppi með „skuldir, landlaust flóttafólk og klofning samfélaga.“

„Mark Rutte kallar Trump ‘Daddy’“

Steinunn gagnrýnir einnig orðræðu innan NATO og vísar til nýlegs fundar þar sem hún segir Mark Rutte, framkvæmdastjóra bandalagsins, hafa sýnt undirgefni gagnvart Donald Trump, forseta Bandaríkjanna.
„Leiðtogi álfunnar talar við forseta Bandaríkjanna eins og barn við föður. Eigum við að hlæja eða gráta?“ skrifar hún.

Evrópa borgaði en Ameríka græddi

Í færslunni fer Steinunn yfir aðgerðir Bandaríkjanna í Írak, Afganistan, Líbíu og Sýrlandi, og segir Evrópu hafa setið eftir með mótmæli, sundrungu og samfélög sem hafi ekki ráðið við afleiðingar styrjalda sem hún studdi.

„Þegar Evrópa hætti að kaupa rússneskt gas, opnuðu Bandaríkin markaðstorg og seldu amerískt gas á fimmföldu verði. Þýskar verksmiðjur lokuðu. Störf fluttu til Texas. Evrópa borgaði en Ameríka græddi,“ skrifar hún og spyr: „Hvers konar vinátta er það?“

Kallar Úkraínu „tilraunastofu dauðans“

Steinunn heldur því fram að bandarískir vopnaframleiðendur noti Úkraínu sem tilraunastofu fyrir ný vopn og tækni.

„Ameríka græðir og eflir hergetu sína en Evrópa þrengir að almenningi, safnar skuldum, blóðslettum saklausra og siglir hratt að siðferðislegu gjaldþroti,“ segir hún.

„NATO er ekki lengur varnarbandalag“

Í lok færslunnar fullyrðir Steinunn að NATO hafi breyst í „stríðsbandalag“ þar sem Bandaríkin dragi Evrópu „blóðuga á eftir sér.“

Hún hvetur Evrópu til að endurskoða samband sitt við Bandaríkin og segir:
„Þetta ‘vinasamband’ við HEIMSK-veldið er ekki lengur ásættanlegt.“

Auglýsing

læk

Auglýsing

Fréttir

Auglýsing