Rúnar Sigurjónsson, stjórnarmaður í Flokki fólksins, sem situr í ríkisstjórn Íslands, fordæmir harðlega mótmæli í tengslum við stuðning við Palestínu sem fram fóru á 17. júní, þjóðhátíðardegi Íslendinga.
Í færslu sinni á Facebook segir Rúnar að hann geti „ekki lengur orða bundist“ og gagnrýnir mótmælendur fyrir að trufla hátíðarhöld dagsins.
„Mér finnst ekki í lagi og á engan hátt boðlegt að vanhelga þjóðhátíðardag Íslendinga og trufla hátíðleika hans með hrópum og köllum, öskrum og skrílslátum þar sem þjóðfána annars ríkis er flaggað á hátíðlegu torgi,“ skrifar Rúnar.
Hann leggur áherslu á að stuðningur við málstað Palestínu sé lögmætur, en telur að slíkar aðgerðir eigi ekki heima á degi sem helgaður er stofnun lýðveldisins og samstöðu landsmanna, enda hafi þau alla aðra daga ársins til að mótmæla.
Hann skorar á félagið Ísland-Palestína að virða þann dag og leyfa fólki að njóta þess að upplifa „gleði og bros“ í friði.
„Nú er nóg komið í mínum huga. …Þetta í mínum huga ekki ásættanlegt og er hvað mig varðar ykkur og ykkar málstað eiginlega bara til háborinnar skammar,“ bætir hann við í lok færslunnar.
Rúnar gegnir formlegu trúnaðarstarfi innan stjórnmálaflokks sem nú situr í ríkisstjórn Íslands, sem gerir ummæli hans sérstaklega athyglisverð í ljósi þeirra deilna sem upp hafa komið um mótmæli tengd málefnum Palestínu á undanförnum mánuðum.