Fjöldi bandarískra stórfyrirtækja hefur í ár ákveðið að draga úr sýnilegri þátttöku í Pride-mánuðinum sem haldinn er ár hvert í júní.
Þetta kemur fram í grein CNN þar sem vitnað er til nýrrar könnunar frá Gravity Research sem sýnir að 39% fyrirtækja hyggjast minnka þátttöku sína í opinberum viðburðum, samfélagsmiðlaverkefnum og sölu á regnbogamerktri vöru í tilefni mánaðarins.
Ákvörðunin er rakin til vaxandi þrýstings frá stjórnvöldum Donalds Trump forseta og stuðningsfólki hans, sem hafa hótað rannsókn á fjölbreytni- og jafnréttisverkefnum fyrirtækja.
Samkvæmt forsvarsmanni Gravity Research hefur þessi pólitíski þrýstingur valdið kúvendingu í afstöðu margra stórfyrirtækja til LGBTQ-málefna.
Hræðsla við pólitíska refsingu og sniðgöngu
Fyrirtækin óttast ekki aðeins afskipti stjórnvalda heldur einnig viðbrögð íhaldssamra neytenda.
Eftir harða gagnrýni og stórtap Bud Light og Target í kjölfar tengingar við transáhrifavalda og LGBTQ-málefni eru mörg fyrirtæki hikandi við að sýna stuðning sinn opinberlega.
Fyrirtæki á borð við Walmart, Kroger og Target hafa jafnframt varað fjárfesta við auknum áhættuþáttum tengdum afstöðu fyrirtækjanna til slíkra mála.
Minni sýnileiki í verslunum og á samfélagsmiðlum
Target, eitt þeirra fyrirtækja sem lentu hvað harðast í skotlínu gagnrýnenda í fyrra, hefur í ár takmarkað regnbogavörulínuna við valdar verslanir á frjálslyndari svæðum og ýtt henni í auknum mæli yfir á netverslun.
Verslunin selur þó áfram vörur merktar Pride, líkt og bækur, föt og skrautvörur, en í minna mæli og án auglýsingaherferða.
Macy’s og Nordstrom halda þó áfram að styðja viðburði og viðfangsefni tengd Pride, en án opinberra tilkynninga eins og áður tíðkaðist.
Gap og Kohl’s hafa ekkert gefið út um áform sín í ár, þrátt fyrir fyrri þátttöku og styrki til samtaka á borð við The Trevor Project.
Bakslag eða framför?
Fulltrúar réttindasamtaka LGBTQ segja að þessi þróun endurspegli ótta fyrirtækja við að verða miðpunktur pólitískrar deilu, en telja þó ekki að fyrirtækin séu að hverfa frá stuðningi sínum.
Í stað opinberra herferða séu þau nú að leggja meiri áherslu á innri starfsmannahald, ráðningarstefnu og viðburði innan veggja fyrirtækjanna.
Þetta er þó ekki nýtt af nálinni en mörg dæmi eru um fyrirtæki sem hafa bætt regnboganum í merki sitt í mánuðinum en gera það eingöngu þar sem slíkt þykir eða þótti öruggt.
Hjá mörgum fyrirtækjum hefur regnbogafáninn verið í merki þeirra í júní mánuði á vesturlöndum en á svæðum eins og mið-austurlöndum hefur regnboginn hvergi verið sjáanlegur.