Svar mitt vegna samskipta við ritstjóra Heimildarinnar – Páll Steingrímsson

Þess ber sérstaklega að geta að ritstjórnin kaus að koma ekki neðangreindum athugasemdum mínum á framfæri.

Þeim hætti sem gert var af hálfu Heimildarinnar, heilar 18 athugasemdir.

Auglýsing

Aðspurð kaus ritstjóri Heimildarinnar að nefna ekki annað dæmi um sambærileg ritstjórnarlegt inngrip í aðsendar greinar.

Enda eru slík dæmi líklegast ekki fyrir hendi.

Viðbrögð og andsvör

En mér er ljúft og skylt að bregðast við athugasemdum ritstjórnar Heimildarinnar. Samandregið bera þau viðbrögð vitni um þann vonda málstað sem hún heldur áfram að verja vegna eigin slælegu vinnubragða í gegnum tíðina.

Hefðu þau einhvern manndóm í sér hefðu þau beðið mig og fjölskyldu mína afsökunar á þeirri meðferð sem við höfum setið undir undanfarin ár, kyngt skömminni og borið harm sinni í hljóði.

Þess í stað er hausnum barið við steininn fastar en nokkru sinni áður og undirritaður vændur um að hafa villt um fyrir lögreglu. Vart er hægt að sökkva mikið dýpra í fen eigin undanbragða.

Athugasemdir ritstjórnar Heimildarinnar

Heimildin stendur við umfjöllun Aðalsteins og annarra blaðamanna um Samherja og skæruliðadeildina.

Umfjöllunin fékk verðlaun frá Blaðamannafélagi Íslands, meðal annars vegna vandaðra vinnubragða.

Svar mitt:
Það er reyndar kómískt að ritstjórn Heimildarinnar setji fram athugasemdir í 18 liðum með réttlætingunni að umfjöllun blaðsins hafi fengið verðlaun frá Blaðamannafélagi Íslands. Claas Relotius í Þýskalandi var einnig margverðlaunaður.

Þetta er pínu eins og verðlaunin sem Reykjavíkurborg veitti sjálfri sér fyrir leikskólann sem stóð ekki undan þunga þaksins. Ekki mikils virði.

En skoðum athugasemdirnar

1. Aðalsteinn Kjartansson hefur aldrei hitt eða talað við Lasse Skytte. Páll hlýtur því að vera að fara mannavillt, þegar hann vísar til vináttu þeirra.

Svar mitt:
Mér er sérstaklega ljúft og skylt að draga til baka orð mín um vinskap Aðalsteins og Lasse Skytte. Ég einfaldlega stóð í þeirri meiningu að allir blaðamenn á Íslandi væru vinir, sérstaklega þegar nánustu samverkamenn Aðalsteins, Þórður Snær og Sigríður Dögg, hafi verið viðmælendur hans í tveimur greinum, auk þess sem Ingi Freyr skrifaði sérstaklega grein um grein Lasse Skytte í Heimildina.

En að þetta skuli hafa verðskuldað sérstaka athugasemd ritstjórnar, sem greinilega heldur utan um félagslegt tengslanet starfsmanna sinna og minnstu smáatriði er að þeim lúta, verður að teljast sérkennilegt í meira lagi.

2. Engar efnislegar athugasemdir hafa verið gerðar við fréttaflutning af Samherjamálinu eða vinnubrögðin þar að baki.

Svar mitt:
Fyrir utan að þessi fullyrðing er einfaldlega röng þá skil ég ekki samhengi hennar við erlend mál sem ég nefndi. Það hafa víst verið gerðar fjölmargar efnislegar athugasemdir við fréttaflutning af “Samherjamálinu”, svo ekki sé talað um málið sem snýr að mér persónulega.

Vinnubrögðin að baki hafa margsinnis verið gagnrýnd af Samherja og mér persónulega. Þá var fyrrum starfsmaður Heimildarinnar, Helgi Seljan, fundinn sekur um alvarleg brot gegn siðareglum Ríkisútvarpsins í apríl 2021 vegna ummæla um Samherja.

Þessi athugasemd ritstjórnar virðist því byggjast á geðshræringu fremur en nokkru öðru.

Hér er dæmi um svargrein frá mér, ein af mörgum sem virðist hafa farið framhjá ykkur:

„Ég hef lengi vitað að hugmyndaflugi Aðalsteins Kjartanssonar og félaga hans, Þórðar Snæs, eru lítil takmörk sett“

 

3. Engar athugasemdir hafa verið gerðar við Aðalstein, hvorki af hálfu lögreglu né saksóknara, um að hann hafi eytt nokkru. Að honum vitandi átti engin gagnaöflun sér stað í stafrænum gögnum hans eða annarra blaðamanna. Engu hefur verið eytt.
Svar mitt:

Hvergi í grein minni sagði ég að Aðalsteinn hefði eytt neinum gögnum. En lögreglan fullyrti að stafrænum gögnum hefði verið eytt.

Hins vegar var ekki tekið fram hver hefði staðið að baki þeirri gagnaeyðingu, sem var meðal ástæðna þess að rannsókn sakamálsins strandaði. Sætir furðu hversu persónulega Aðalsteinn tekur þessari staðreynd.

Ég vísa í yfirlýsingu lögreglu á Facebook 26. september 2024 þar sem þetta kemur fram. Hörund ritstjórnar Heimildarinnar er greinilega með sárasta og viðkvæmasta móti sem fær hvern mann til að hugsa.

4. Aldrei hefur því verið haldið fram að lög hafi verið brotin. Lögreglan rannsakaði þó ekki ummæli sem fjölluðu um hvernig koma ætti í veg fyrir vitnisburð Jóhannesar Stefánssonar fyrir dómi í Namibíu. Svo virðist sem lögregla hafi annað hvort horft framhjá þeim ummælum eða að búið hafi verið að fjarlægja þau úr WhatsApp þegar símtæki Páls var afhent lögreglu.

Svar mitt:
Þessi athugasemd sýnir að ritstjórn Heimildarinnar er fullljóst að óréttlætanlegt var og óverjandi að birta mín einkasamskipti. Ég afhenti lögreglu ÖLL samskipti mín við tiltekna aðila og því byggir afstaða og ígrundað mat lögreglu.

Alvarleg ásökun er fólgin í þessari athugasemd, það er að að væna mig um að villa um fyrir lögreglu. Ég krefst þess að ritstjórn Heimildarinnar dragi þessa athugasemd til baka, því þarna heggur ritstjórn persónulega að mér með dylgjum og aðdróttunum.

5. Kenning og afstaða lögreglunnar var sú að almenningur hafi ekki átt að fá upplýsingar um það hvernig Samherji beitti starfsfólki sínu og ráðgjöfum gegn uppljóstrara Samherjamálsins, blaðamönnum og öðrum þeim sem tjáðu sig um mál fyrirtækisins opinberlega. Lögreglan rannsakaði það hins vegar ekki og kemur fram í rökstuðningi lögreglu fyrir ákvörðunum sínum, sem sjá má úrdrátt úr í staðfestingu ríkissaksóknara á að loka málinu, að lögregla hafi valið að reyna einungis að fá úr því skorið hvort og þá hver hafi afritað símtæki Páls. Það var því ekki til rannsóknar hvort einka- eða almannahugsmunir hefðu réttlætt birtingu.

Svar mitt:
Það er nákvæmlega enginn fótur fyrir því að Samherji hafi beitt einum eða neinum fyrir sig, hvað þá GEGN „uppljóstrara“ eða öðrum.

Til þess að meta hvort aðkoma blaðamanna hafi verið refsilaus, þurfti lögregla eðli málsins samkvæmt að skoða hvort ástæður til refsileyfis hafi verið fyrir hendi. Afdráttarlaust mat lögreglu var að svo var ekki.

Þó aðaláherslan hafi verið lögð á að fá úr því skorið hver afritaði símtæki mitt, þá liggur líka fyrir, þó ritstjórn sé ósátt við það, að lögreglan skoðaði einnig samskiptin og fréttaskrifin.

Staðreyndin er að þetta er ekki „kenning“ lögreglu, þetta er afstaða hennar, og tekur ríkissaksóknari hana upp í sínu afstöðubréfi.

6. Aldrei hefur öðru verið haldið fram en því að lögreglan hafi komist að því að rétt hafi verið haft eftir í samtölum.

Svar mitt:
Þarna fer ritstjórn með fleipur.

Lögreglan (a) staðfesti að fréttirnar voru unnar upp úr samskiptunum og (b) að í tilteknum tilvikum var um að ræða orðréttar tilvitnanir. Það er ekki það sama og að segja að rétt hafi farið með.

Eins og ég bendi á með dæmunum, þá voru samskipti tekin úr samhengi og meira gert úr litbrigðum tungumálsins en efni stóðu til.

Þess utan þá viðurkenndi lögmaður Aðalsteins í réttarsal að hann hefði ekki haft öll gögnin undir höndum. Þar með getur hann ekki sagt annað en að hann hafi bara haft brotakennda mynd af samskiptunum.

Þetta þýðir að hann hafði ekki forsendur til að skrifa fjölda greina upp úr þeim og gera mér og öðrum upp fyrirætlanir.

7. Birt brot úr samtalinu breytir engu um samhengi ummælanna.

Svar mitt:
Ég veit hreinlega ekki hvað ég á að segja, en samskiptin setja grein Aðalsteins í allt annað ljós.

Hann gaf til kynna að ég væri leiksoppur og sleppti ummælum sem sýndu að ég fékk sendar hugmyndir sem ég tók ákvarðanir um.

Hann sleppti einnig því sem útskýrði hvað átt var við með tungutakinu.

Þetta er eins aumkunarverð og tilgangslaus athugasemd ritstjórnar og hugsast getur. Ljóst er að á Heimildinni er ekki sagt frá atburðum heldur hvað fólki á að finnast og hvaða skoðun það á að hafa. Þetta er ritstjórn í sinni brengluðustu mynd.

Ég minni aftur á viðurkenningu lögmanns Aðalsteins í réttarsal þess efnis að hann hefði ekki haft öll gögnin undir höndum.

8. Morgunblaðið fjallaði vissulega ítrekað um ásakanir starfsmanns Samherja í garð blaðafólks. Sautján færslur hafa birst undir merkjum Spursmála á vef Mbl.is, af þeim byggja sex þeirra beint á viðtali við Pál, og þrjár sem byggja beint á viðtali við lögmann Páls. Fleiri fréttir snúast svo um að reyna að sýna fram á að fullyrðingar Páls séu réttar. Mikið af þeim gögnum sem rötuðu inn í lögregluskýrslu og Morgunblaðið vann upp úr eiga uppruna hjá Páli, svo sem tímalína sem hann vann, ítrekaðar yfirlýsingar hans hjá lögreglu, og fleira í þeim dúr.

Svar mitt:
Ég skil ekki af hverju Morgunblaðið fær að kenna á geðshræringu ritstjórnar, en tel blaðið fullfært um að svara ávirðingunum og eftirlæt þeim það.

Vil þó taka fram að Morgunblaðið fékk öll gögn málsins og gátu því blaðamenn þar á bæ myndað sér sína eigin skoðun – engum var sagt hvað honum ætti að finnast.

Slíkt fer greinilega fyrir brjóstið á ritstjórn Heimildarinnar.

9. Það eina sem liggur fyrir er að einn af sakborningum í málinu segist hafa farið með síma Páls í Efstaleiti. Ekkert liggur fyrir um hvort síminn hafi verið afritaður þar, eða annars staðar, og gerði lögreglan enga tilraun til að útskýra hvernig gögn kunna að hafa farið af símtækinu og ratað til blaðamanna. Raunar, eins og kemur fram í greininni, staðfesti lögreglan með rannsóknaraðgerð að ekki er hægt að afrita símtæki með þeim hætti sem lýst hefur verið.

Svar mitt:
Skýrslutökur yfir sakborningi staðfesta að síminn fór upp í Efstaleiti.

Staðsetningargögn sýna að síminn var þar, samtímagögn frá 2021. Tölvupóstar og upplýsingar frá héraðssaksóknara staðfesta það, auk þess sem Ríkisútvarpið hefur aldrei neitað því.

En af hverju ritstjórn Heimildarinnar er svona umhugað að taka upp hanskann fyrir Ríkisútvarpið er sjálfstætt umhugsunarefni.

En frjálst flæði vinnuafls milli ríkisstofnunarinnar og Heimildarinnar í anda EES er kannski vísbending um einhvers konar sameiginlega hagsmuni eða samstarf á milli fjölmiðlanna tveggja?

10. Því hefur aldrei verið haldið fram að lög hafi verið brotin. Lögreglan rannsakaði þó ekki ein ummæli sem gæfu þó tilefni til, sem fjölluðu um hvernig koma ætti í veg fyrir vitnisburð Jóhannesar Stefánssonar fyrir dómi í Namibíu. Svo virðist sem lögregla hafi annað hvort horft framhjá þeim ummælum eða að búið hafi verið að fjarlægja þau ummæli úr WhatsApp þegar símtæki Páls var afhent lögreglu.

Svar mitt:
Vísa í athugasemd nr. 4.

11. Sakborningar fylgdu öllum lögum og reglum sem gilda, mættu til skýrslutöku þegar úr því hafði verið skorið að heimilt væri samkvæmt lögum að kalla þá til yfirheyrslu vegna fréttaskrifa. Á blaðamönnum hvílir lagaleg skylda að svara ekki spurningum um heimildarmenn og það var ekki gert. Það getur ekki verið túlkað sem svo að blaðamenn séu ósamvinnuþýðir eða torveldi rannsókn mála.

Svar mitt:
Hér gætir aftur viðkvæmni ritstjórnarinnar. Ég einfaldlega vísaði í opinbera afstöðu lögreglu og ríkissaksóknara, sem ritstjórn þolir ekki.

Algjörlega óskiljanlegt að slíkt kalli á sérstakar athugasemdir ritstjórnar við aðsenda grein mína, sem byggir á þessum tilteknu heimildum – ekki minni persónulegu skoðun eða upplifun.

12. Sakarefni, eins og það var kynnt í skýrslutökum og þegar málinu var lokað, voru fréttaskrif.

Svar mitt:
Í raun fólu greinarskrifin í sér að einkasamskiptum var dreift og þau birt án þess að refsileysisástæður væru fyrir hendi.

Þessi athugasemd er því viðurkenning á því, ef eitthvað.

13. Þetta er frjálsleg túlkun á niðurstöðu ríkissaksóknara, sem fjallaði ekki sérstaklega um efnisatriði málsins, heldur aðeins ástæður þess að lögreglan lokaði því. Það hefur lengi legið fyrir að starfsmenn lögreglunnar á Norðurlandi Eystra telja það ekki koma almenningi við hvernig Samherji beitti starfsfólki sínu fyrir sig og skipulagði rógsherferðir gegn uppljóstrara Samherjamálsins, blaðamönnum og öðrum þeim sem hafa tjáð sig um það opinberlega. Meginþorri almennings virðist þó á annarri skoðun og sá Samherji ástæðu til að biðjast opinberlega afsökunar á framferði sínu í kjölfar uppljóstrunarinnar.

Svar mitt:
Þetta er óskiljanleg athugasemd ritstjórnar.

Hvernig er það frjálsleg túlkun á niðurstöðu þegar ég er með beina tilvitnun í staðfestingarbréf ríkissaksóknara?

Ríkissaksóknari fór yfir helstu röksemdir lögreglu, og eins og áður segir, tók upp hluta orðrétt, og staðfesti niðurstöðuna nema varðandi eitt atriði sem ríkissaksóknari var ósammála lögreglu með.

Hvernig hægt er að líta á það sem „frjálslega túlkun“? Enn og aftur, geðshræring ritstjórnar.

14. Aftur: Þetta er frjálsleg túlkun á niðurstöðu ríkissaksóknara, sem fjallaði ekki sérstaklega um efnisatriði málsins, heldur aðeins ástæður þess að lögreglan lokaði því. Það hefur lengi legið fyrir að starfsmenn lögreglunnar á Norðurlandi Eystra telja það ekki koma almenningi við hvernig Samherji beitti starfsfólki sínu fyrir sig og skipulagði rógsherferðir gegn uppljóstrara Samherjamálsins, blaðamönnum og öðrum þeim sem hafa tjáð sig um það opinberlega. Meginþorri almennings virðist þó á annarri skoðun og sá Samherji ástæðu til að biðjast opinberlega afsökunar á framferði sínu í kjölfar uppljóstrunarinnar.

Svar mitt:
Sjá svar nr. 13.

15. Lögreglan rannsakaði ekki ein ummæli sem gæfu þó tilefni til, sem fjölluðu um hvernig koma ætti í veg fyrir vitnisburð Jóhannesar Stefánssonar fyrir dómi í Namibíu. Svo virðist sem lögregla hafi annað hvort horft framhjá þeim ummælum eða að búið hafi verið að fjarlægja þau ummæli úr WhatsApp þegar símtæki Páls var afhent lögreglu.

Svar mitt:
Sjá svar nr. 4.

16. Aðalsteinn hefur ekki „margsinnis“ átt „orðastað“ við Pál. Undanfarin ár hefur Páll hins vegar birt ítrekaðar athugasemdir og greinar, fyrst og fremst á Vísi og í Morgunblaðinu, þar sem hann beinir orðum sínum að Aðalsteini. Hvorki hefur verið um samtal að ræða né skoðanaskipti.

Svar mitt:
„Margsinnis“ er greinilega tiltekin stærð eða fjöldi að mati ritstjórnar Heimildarinnar.

Að mínum dómi þýðir „margsinnis“ þegar ég hef í nokkur skipti reynt að fá Aðalstein til að standa fyrir máli sínu.

En hann annað hvort eyðir mínum athugasemdum eða svarar með „gögnin tala sínu máli“. Eins og maðurinn segir, tveir er fjöldi. Fyrir mér er a.m.k. fjögur skipti margsinnis.

En ég vissi ekki að ritstjórn héldi utan um öll samskipti starfsmanna sinna á samfélagsmiðlum, sérstaklega þegar þeir störfuðu á öðrum fjölmiðli.

En kannski er enginn munur á Ríkisútvarpinu og Heimildinni í augum ritstjórnar Heimildarinnar? Áleitnar spurningar vakna líka um það hvort ritstjórn Ríkisútvarpsins geri heldur ekki þennan greinamun, en slíkar vangaveltur eru efni í aðra umræðu.

17. Því hefur aldrei verið haldið fram. Í umfjöllun um Samherjamálið kom fram að norski bankinn DNB taldi að Cape Cod væri í eigu Samherja, þar sem starfsmaður útgerðarinnar hafi bæði verið stofnandi prókúruhafi reiknings Cape Cod í DNB.

Svar mitt:
Þetta er eins rangt og hugsast getur.

Ég hengi hér við skjámynd úr áhættumati norska bankans, sem Aðalsteinn hafði undir höndum.

Þarna er bankinn með alveg á hreinu hvernig eignarhaldi Cape Cod var háttað og ekki í neinum vafa um það né hélt að fyrirtækið væri í eigu Samherja.

Sjá hér grænt ljós í áhættumatinu.

18. Í janúar árið 2023 gerði Samherji sátt við Skattinn sem fól í sér að útgerðin greiddi 60 milljónir króna í viðbótarskatta vegna þess að félagið stóð ekki rétt að staðgreiðslu opinberra gjalda og tryggingagjalds af sjómönnum á erlendum skipum. Þar var um að ræða áhafnir sem störfuðu sem verktakar á vegum félagsins Cape Cod FS.

Svar mitt:
Þetta var tekjuskattsálagning vegna handfylli sjómanna og ekki víst að dómstólar hefðu samþykkt þessa túlkun.

Eins og kom fram í yfirlýsingu Samherja var það mat félagsins að ekki borgaði sig að elta ólar við þetta ef greiðslan þýddi að málinu lyki.

Ef Skatturinn hefði verið á því að Cape Cod hefði verið í eigu Samherja og skattskylt á Íslandi þá hefði fjárhæðin hlaupið á milljörðum auk þess sem málið hefði varðað hundruði sjómanna en ekki handfylli.

Þetta er aumt yfirklór til að bjarga andlitinu á Aðalsteini vegna ofangreindrar rangfærslu um eignarhaldið á Cape Cod.

Þessi mynd fylgdi pistli Páls

Auglýsing

læk

Auglýsing

Fréttir

Auglýsing