Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, beindi þeirri spurningu til Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur utanríkisráðherra á Alþingi í dag hvort ráðherra hygðist „kæfa fyrirtækið Vélfag“. Mbl.is greindi fyrst frá málinu.
Sigmundur Davíð sagði að um væri að ræða hátæknifyrirtæki sem skapaði mörg störf á Akureyri og Ólafsfirði og skipti miklu fyrir verðmætasköpun á Íslandi. Hann hélt því fram að utanríkisráðuneytið hefði þrengt að starfsemi fyrirtækisins án þess að funda með fulltrúum þess eða veita skýringar.
Vélfag á Akureyri á barmi gjaldþrots vegna ákvarðana utanríkisráðherra
„Ég æski þess að hæstv. ráðherra upplýsi þingið hér og nú um hvort til standi að kæfa þetta fyrirtæki,“ sagði Sigmundur Davíð. „Þetta gengur ekki. Þeir sem reka gott og öflugt fyrirtæki eiga ekki að þurfa að búa við slíka óvissu.“
Hann gagnrýndi ráðherrann harðlega fyrir að hafna fundarbeiðnum Vélfags og benti á að fyrirtækið væri í eigu bæði íslenskra og erlendra aðila innan EES, meðal annars frá Liechtenstein og Sviss.
Ráðherra sagðist ekki geta tjáð sig um málið
Þorgerður Katrín svaraði því til að málið væri til meðferðar hjá utanríkisráðuneytinu og að hún gæti ekki tjáð sig nánar að svo stöddu. Hún sagði að unnið væri samkvæmt stjórnsýslulögum og alþjóðlegum skuldbindingum Íslands.
„Við þurfum að hafa heildarsamhengi hlutanna í huga,“ sagði ráðherrann. „Markmið Rússa er að grafa undan stöðugleika í Evrópu og við verðum að gæta þess að Ísland lendi ekki aftur á gráum lista. Það hefði alvarlegar afleiðingar fyrir samfélagið.“
Hún bætti við að ráðuneytið hefði haft samskipti við Vélfag og lögfræðinga fyrirtækisins og minnti á að íslenskum fjármálastofnunum bæri lagaleg skylda til að frysta fjármuni aðila sem sæta alþjóðlegum refsiaðgerðum.
Gaman að því að gleðja útlendinga
Sigmundur Davíð sagðist ósáttur við svör ráðherrans og sakaði hana um að dylgja um að Vélfag hefði brotið alþjóðareglur.
„Ef ráðherra telur það, þá þarf hún einfaldlega að segja það og færa rök,“ sagði hann. „Ekki neita að gefa upplýsingar og vísa í stríðið í Úkraínu. Hvað kemur það þessu máli við?“
Hann hélt því jafnframt fram að utanríkisráðherra hefði „gaman af því að gleðja útlendinga“ og varaði við því að ráðuneytið væri að beita íslenskt fyrirtæki órétti.
Nærmynd: Ivan Kaufmann – berst fyrir réttindum hinsegin fólks en sagður rússneskur leppur
Fyrstu skref Íslands í alþjóðlegum þvingunaraðgerðum
Að loknum umræðum sagði Þorgerður Katrín að málið væri það fyrsta sinnar tegundar sem kæmi til úrlausnar hjá íslenskum stjórnvöldum í tengslum við alþjóðlegar þvingunaraðgerðir.
„Við þurfum að vanda okkur,“ sagði hún. „Miklir hagsmunir eru í húfi og við munum hafa hagsmuni Íslands í fyrirrúmi þegar málið verður afgreitt.“
Ráðherrann tók fram að unnið væri í samræmi við íslensk lög og skuldbindingar Íslands gagnvart alþjóðasamfélaginu og að hún hygðist ekki tjá sig frekar að svo stöddu.