Umdeild staða lögreglustjóra á Suðurnesjum rædd á Alþingi – Saka ráðherra um pólitískan brottrekstur í heitum umræðum

Í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi í gær varð hitamál dagsins ákvörðun dómsmálaráðherra um að auglýsa embætti lögreglustjórans á Suðurnesjum, Úlfars Lúðvíkssonar, að nýju.

Karl Gauti Hjaltason, þingmaður Miðflokksins, gagnrýndi ákvörðunina harðlega og sagði að hún virtist pólitísk í eðli sínu og tengjast gagnrýni lögreglustjórans á Schengen-samstarfið og slakt eftirlit með landamærum.

Auglýsing

Karl Gauti vísaði til þess að Úlfar hefði hert eftirlit við landamæri á eigin forsendum þegar stjórnvöld hefðu ekki haft kjark til að grípa til aðgerða.

Hann sakaði dómsmálaráðherra um að þola ekki að embættismaður sýndi sjálfstæði og benti á veikleika í framkvæmd Schengen-reglna og skort á upplýsingagjöf frá flugfélögum.

„Hvers vegna var hann rekinn? Er það vegna þess að ráðherrann gat ekki sætt sig við gagnrýni á opnu landamærin?“ spurði Karl Gauti og bætti við að með því að auglýsa embætti Úlfars væri í raun verið að segja honum að þjónusta hans væri ekki lengur æskileg.

Þorbjörg hafnar brottrekstri – segir um umbætur að ræða

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, dómsmálaráðherra, hafnaði því alfarið að um brottrekstur væri að ræða og sagði að Úlfari hefði verið boðin önnur staða en hann hefði kosið að sækja ekki um.

Hún lagði áherslu á að ríkisstjórnin væri að efla lögregluna á Suðurnesjum og koma þar á greiningar- og brottvísunarstöð, sem Ísland hafi skort þrátt fyrir að vera aðili að Schengen.

„Ríkisstjórnin er að samræma reglur um útlendinga við önnur Schengen-ríki. Þetta er hluti af því að styrkja landamæraeftirlit með fleiri störfum og skýrari lögum,“ sagði hún og bætti við að enginn ætti að teljast í áskrift að embætti, sama hversu vel viðkomandi hefði sinnt starfi sínu.

Hún gagnrýndi Miðflokkinn fyrir að hafa ekki tekið þátt í umræðum um útlendingamál á Alþingi og sakaði hann um að vera aðgerðalausan og ósamkvæman sjálfum sér.

Endurtekin gagnrýni frá Karl Gauta

Í seinni ræðu sinni hélt Karl Gauti áfram gagnrýni sinni og sagði engar fullnægjandi skýringar hafa komið fram frá ráðherra.

Hann lýsti því sem pólitísku sjálfsmarki að víkja embættismanni sem hefði notið trausts og staðið sig vel í starfi.

Hann spurði hvenær ráðherra hygðist auglýsa stöðu lögreglustjórans formlega og hvaða breytingar væru fyrirhugaðar í nýrri skipan embættisins.

Þorbjörg: Engin embætti ævilöng

Dómsmálaráðherra svaraði því að veruleg efling embættisins kalli á nýja skipan og að allir geti sótt um stöðuna.

Hún ítrekaði að enginn hafi tryggingu fyrir áframhaldandi setu í æðstu embættum og að lög krefjist þess að breytingar séu boðaðar með auglýsingu.

 

Auglýsing

læk

Auglýsing

Fréttir

Auglýsing