Nítján ára gamall piltur, Ryan Satterthwaite að nafni, lést á sjúkrahúsi á mánudag eftir að hafa orðið fyrir alvarlegu höfuðhöggi í svonefndum „run it straight“ leik, vinsælum leik meðal ungmenna á samfélagsmiðlum þar sem tveir einstaklingar leika eftir rugby tæklingum af fullum krafti án hlífðarbúnaðar.
Samkvæmt lögreglunni var leikurinn ekki hluti af skipulagðri keppni heldur spilaður í vinahópi, en sorglegt dauðsfallið vekur upp áhyggjur af öryggi slíkra athafna. „Við viljum hvetja fólk til að hugsa sig tvisvar um áður en það tekur þátt í leik eða viðburði sem getur leitt til alvarlegra meiðsla,“ sagði talsmaður lögreglunnar, Ross Grantham, í yfirlýsingu.
Leikurinn „run it straight“ hefur verið spilaður í Ástralíu og á Nýja-Sjálandi í áraraðir, en hefur að undanförnu orðið vinsæll á netinu.
Gagnrýnendur hafa bent á alvarlega áhættu á heilahristingi og varanlegum heilaskemmdum.
Myndbönd á samfélagsmiðlum sýna unga menn takast á fyrir framan áhorfendur og í sumum tilvikum má sjá þátttakendur missa meðvitund eftir högg.
Þrátt fyrir hættuna eru haldnar keppnir eins og Runit Championship League, sem haldin var í Auckland í þessum mánuði og vakti mikla athygli.
Yfir 1.000 manns mættu á Trusts Arena þar sem keppendur börðust um um 13.000 dollara verðlaun.
Aðstandendur keppninnar segjast ætla að halda enn stærri viðburð í næsta mánuði.
Kimami Ngaluafe, skipuleggjandi annars viðburðar, Up the Guts NZ, segir leikinn hafa verið hluta af nýsjálenskri menningu í áraraðir og allt frá fimm ára börnum upp í fertuga karlmenn taka þátt.