Verð á gulli hefur náð sögulegu hámarki og farið yfir 4.000 dali á únsu í fyrsta sinn, þar sem fjárfestar leita í örugga fjárfestingarkosti á tímum aukinnar óvissu.
Samkvæmt frétt Associated Press fór verð á guli yfir 4.000 dali snemma í dag.
Klukkan 9:10 að morgni að staðartíma var framtíðarverð á gulli komið í 4.003 dali, á meðan staðverð (spot gold) stóð í 3.960,60 dölum á hverja únsu.
Bandaríska ríkisstjórnin hefur nú verið lokuð í sjö daga, sem hefur tafið útgáfu talna um efnahagsástandið og ýtt undir spár um vaxtalækkanir frá Seðlabanka Bandaríkjanna.
Fjárfestar hafa því snúið sér að gulli sem skjóli á krepputímum.
„Það er áframhaldandi sókn í gull vegna stöðunnar í Washington og engin merki um að lausn sé í sjónmáli. Þess vegna er eftirspurnin eftir gulli enn töluverð,“ sagði Peter Grant, aðstoðarforstjóri og yfirmaður málmastrategíu hjá Zaner Metals, í samtali við Reuters.
Verð á gulli hefur hækkað um 52 prósent það sem af er ári og er það rakið til samblands óvissu á alþjóðavettvangi, væntinga um lægri vexti, stórra innkaupa seðlabanka og aukins áhuga fjárfesta á gullsjóðum (ETFs).