Júróvisjón er gósentíð hjá hinum ýmsu Youtube áhrifavöldum sem sérhæfa sig í að gagnrýna eða gefa álit sitt á tónlist.
Breski áhrifavaldurinn og tónlistargagnrýnandinn Honest Vocal Coach, sem nýtur mikilla vinsælda á YouTube fyrir einlæga og ófeimna skoðun sína á söng og tónlist, tók nýverið fyrir framlag Íslands til Eurovision 2025 – og hún sparaði ekki stóru orðin.
Þess má geta að hún gaf íslenska laginu ‚Scared of Heights‘ með Heru Björk góða einkunn fyrir keppnina í fyrra.
Vinsæll áhrifavaldur gefur álit sitt á framlagi Íslands í Júróvisjon.
Ekki sama jákvæðnin gagnvart framlagi Íslands í þetta skiptið
Honest Vocal Coach er forfallinn aðdáandi keppninnar og fer yfir öll lögin á hverju ári og gefur álit sitt á þeim, en hún er með næstum 300 þúsund áskrifendur á Youtube.
„Ég bara næ þessu ekki,“ sagði hún þegar hún hafði horft á flutning lagsins.
Hún lýsti mikilli undrun með það sem hún sá og heyrði.
Lagið, sem fjallar um bátsferð á úfnum sjó, var að hennar mati í algjörri andstöðu við sviðsmyndina.
„Við erum að syngja um að róa bát, en klædd í geimbúninga. Ég skil ekki tenginguna,“ sagði hún og benti jafnframt á að báturinn birtist á gólfinu í bakgrunninum án þess að það væri útskýrt frekar.
Búningar flytjenda fengu einnig sinn skerf af gagnrýni: „Þeir líta út eins og þeir séu í silfur ruslapokum. Þetta virðist vera árið þar sem allir klæða sig í álfilmu.“
Texti lagsins vakti sérstaka athygli hennar, en hún fór yfir ensku þýðinguna í beinni og las með undrun í röddinni:
„Rowing here, rowing there, rowing through the waves, there is nothing that can stop me.“
Hún bætti við: „Á yfirborðinu eru textarnir bara mjög slakir. Ég finn enga dýpt. Ef það er einhver, þá þarf einhver frá Íslandi að útskýra það fyrir mér.“
Of háar bakraddir?
Söngurinn sjálfur fékk einnig slaka einkunn en hún gagnrýndi hversu mikið var treyst á bakraddir í flutningnum og sagði að aðalsöngvararnir hefðu í raun verið að syngja ofan á eigin raddir á upptöku.
„Bakraddirnar eiga að styðja við þig, ekki yfirgnæfa þig,“ sagði hún og bætti við að það væri lítið sem hægt væri að segja um sönginn þar sem hann næði varla í gegn.
Eftir því sem líða tók á myndbandið virtist þreyta setjast að hjá Honest Vocal Coach:
„Ég er bara komin með pínu leið á þessu. Þetta grípur mig ekki. Viðlagið er í lagi, en það er eiginlega allt og sumt.“
Hún lýkur gagnrýninni á kaldhæðnislegum nótum: „Mic drop gerist þegar eitthvað stórkostlegt hefur átt sér stað. Þetta var ekki það.“
Að lokum hvatti hún Íslendinga til að útskýra lagið fyrir sér í athugasemdum:
„Ef það er einhver dýpri merking, látið mig endilega vita. Ég vil skilja þetta en eins og er, þá fer þetta lag ansi neðarlega á listann minn.“