Stjórn Klakka hyggst mæla með því við hluthafa félagsins að fyrirhugaðar kaupaukagreiðslur, sem hluthafafundur samþykkti á mánudag, verði dregnar til baka. Þetta kemur fram í tilkynningu frá stjórn Klakka.
Fréttablaðið greindi frá því í gær að stjórnendur og stjórnarmenn Klakka, sem heldur utan um 100 prósenta hlut í Lykli, geti fengið samanlagt um 550 milljónir króna í bónus í tengslum við væntanlega sölu á Lykli. Lykill hét áður Lýsing.
Fyrirhugaðar bónusgreiðslur vöktu hörð viðbrögð sem eru ástæðan fyrir því að lagt er til að þær verði dregnar til baka, samkvæmt tilkynningunni. „Stjórnin hefur hlýtt á þær athugasemdir sem fram hafa komið og og telur að óhjákvæmilegt sé að bregðast við til að skapa traust í garð félagsins,“ segir þar.
Slíkt traust sé enda grundvallaratriði fyrir alla sem stunda viðskipti á Íslandi.
Stærsta eign Klakka er Lykill, sem hefur verið umsvifamikið í fjármögnun bifreiða- og atvinnutækja hér á landi á síðustu árum. „Vill stjórn Klakka með þessari ákvörðun stuðla að því að friður geti ríkt um Lykil og þannig hámarkað virði félagsins í þágu allra hluthafa,“ segir í tilkynningu.