Biskup Íslands greiðir tæpar 90 þúsund krónur í leigu fyrir embættisbústað sinn í Bergstaðastræti 75 í miðborg Reykjavíkur. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag. Í umfjöllun kjararáðs um launakjör biskups er leigan tiltekin sem ein af forsendum launahækkunar biskups.
Sjá einnig: 12 ára kyrrstaðan sem þjóðkirkjan er að tala um útskýrð
Laun Agnesar M. Sigurðardóttur, biskups Íslands, voru hækkuð um 18 prósent í desember. Heildarlaunin eftir hækkunina eru 1.553.359 krónur. Hækkun biskups er afturvirk til 1. janúar 2017 þannig að um næstu mánaðarmót fær hún eingreiðslu, einskonar leiðréttingu á árinu, upp á 3,3 milljónir króna.
Í bréfi Agnesar til kjararáðs, þar sem hún óskaði eftir að launakjör sín væru endurskoðuð, tiltók hún sérstaklega húsaleiguna en farið var að rukka biskup og vígslubiskupa um leigu af bústöðum sínum árið 2012.
Biskupsbústaðurinn er 487 fermetra hús í miðborginni metið á 185 milljónir króna, samkvæmt frétt Fréttablaðsins. Agnes segir í Fréttablaðinu að sér sé skylt að búa í húsinu. „Þetta er biskupssetur, biskupsgarður, sem þýðir að þetta er líka móttökustaður fyrir móttökur biskups. Ég deili eldhúsi með veisluþjónustu eins og ég segi stundum. Það er bara eitt eldhús í húsinu og maður veit ekki alltaf hver er að vinna í eldhúsinu manns,“ segir Agnes.