Snorri Másson, varaformaður Miðflokksins, gagnrýndi harðlega skattastefnu ríkisstjórnarinnar í ræðu á Alþingi og sagði hana beinlínis vinna gegn hagsmunum íslenskra barnafjölskyldna.
Hann vísaði sérstaklega til þess að önnur ríki, eins og Pólland, væru að gera markvissar aðgerðir til að styrkja foreldra og hvetja til barneigna.
Pólland afnemur tekjuskatt fyrir foreldra
„Í vestrænum ríkjum, eins og í Póllandi til dæmis, er farið í róttækar aðgerðir til að lyfta upp barnafjölskyldum og hvetja fólk til barneigna,“ sagði Snorri í ræðu sinni og vísaði þar til nýrra laga í Póllandi sem gera foreldra með tvö eða fleiri börn og eru undir ákveðnu frítekjumarki undanþegna tekjuskatti.
Lögin, sem forseti Póllands Karol Nawrocki skrifaði undir nýverið, fela í sér að frítekjumark foreldra hækkar verulega og foreldrar með meðaltekjur spara að jafnaði um 33 þúsund íslenskar krónur á mánuði.
Aðgerðin er hluti af átaki stjórnvalda til að stemma stigu við sögulegri lægð í fæðingartíðni.
„Hér heima koma ákvarðanir á færibandi gegn fjölskyldum“
Snorri sagði hins vegar að íslensk stjórnvöld væru að fara í öfuga átt.
„Hér heima heyrist lítið um slíkar hugmyndir. Þvert á móti koma inn í þingið ákvarðanir á færibandi sem ég tel beinlínis vinna gegn hagsmunum íslenskra barnafjölskyldna og möguleikum þeirra á að fjölga sér,“ sagði hann.
Skattahækkanir bitna mest á landsbyggðinni
Snorri vísaði sérstaklega til nýrrar 7,5 milljarða króna skattahækkunar sem hann sagði vera í formi hærri vörugjölda á bensínbíla, á meðan vörugjöld á rafbíla eru felld niður.
„Einna mest hækkun kemur á venjulega fjölskyldubíla. Þetta bitnar sérstaklega á fjölskyldum á landsbyggðinni sem einfaldlega geta ekki verið með rafbíla á þessu stigi máls,“ sagði hann og bætti við að almenningur væri látinn „borga brúsann fyrir hugðarefni Viðreisnar um að banna bensínbíla við fyrsta tækifæri.“
Gagnrýnir afnám samsköttunar og reglur um fæðingarorlof
Auk þess gagnrýndi Snorri fyrirhugað afnám samsköttunar hjóna, sem hann sagði þýða mörg hundruð þúsund króna skattahækkun fyrir mörg heimili, sérstaklega þar sem börn eru ekki enn komin á leikskóla.
Hann benti einnig á að ríkisstjórnin neitaði enn að leyfa foreldrum að skipta fæðingarorlofi sínu sín á milli eftir því sem þeim og barni þeirra hentar best.
„Þetta þýðir að í mörgum tilvikum verða fjölskyldur fyrir alvarlegu, jafnvel milljóna tjóni, með pínulítið barn,“ sagði Snorri Másson.