Guðmundur Vignir Steinsson, aðstoðarslökkviliðsstjóri á Kirkjubæjarklaustri, var einn af fyrstu mönnum sem kom að rútuslysinu í Eldhrauni í gær. Hann segir í samtali við Rúv að sennilega hafi enginn farþega verið í bílbeltum í rútunni.
Ein kona lést í slysinu og tólf voru fluttir á sjúkrahús, sumir alvarlega slasaðir. Guðmundur segir í samtali við fréttastofu Rúv að aðstæður hafi verið erfiðar. „Það var frekar kalt en það var ekki mikið rok. Það var hálka og mikill ís í vegköntum og snjórinn glerharður svo það var erfitt að fóta sig þarna í kring,“ segir Guðmundur Vignir.
Hann segir að bílbelti hefðu getað komið í veg fyrir stórslys. „Í þessu slysi hefði það gert gríðarlegan gæfumun ef menn hefðu verið í bílbeltum. Bílbeltin eru það sem bjargar í þessu og hefði virkilega getað komið í veg fyrir stórslys,“ bætir Guðmundur við.
Haft er eftir Guðmundi í frétt Rúv að sennilega hafi enginn farðþega verið í bílbeltum. „Það er náttúrulega rannsóknarvinnan sem upplýsir það en við allavega teljum það að það hafi verið mjög lítið um það,“ segir Guðmundur Vignir.