Arctic Drone Yoga í heilan sólarhring

Upplifunin verður engu lík, þegar viðburðurinn Arctic Drone Yoga verður haldinn dagana 19.-20. október næstkomandi á Fosshótel Húsavík. Í heilan sólarhring verður spiluð svokölluð drun-tónlist, eða „drone“ eins og það kallast á ensku. Skapaður verður einstakur hljóðheimur sem gestir stíga inn í og umlykur þá á meðan þeir dvelja í rýminu. Ótruflaðir tónarnir, skapaðir af röddum eða hljóðfærum, ná út fyrir tíma, tónlistarflokka og jafnvel tónlistina sjálfa. Upplifunin verður þannig sameiginleg bæði fyrir gestina og tónlistamennina sem skapa hljóðheiminn.

Einnig verður boðið upp á jóga í sex klukkustundur, en gestir geta bæði stundað jóga á meðan þeir hlusta og upplifa tónlistina eða einfaldlega komið sér þægilega fyrir og leyft tónunum að flæða um líkamann.

Drun tónlist á sér langa sögu og hefur verið notuð í þjóðlagatónlist í þúsundir ára. Á Arctic Drone Yoga koma fjölmargir tónlistarmenn fram og sumir þeirra heimsþekktir eins og Melissa Auf der Maur bassaleikari Smashing Pumpkins, Atli Örvarsson, Ólöf Arnalds, Barði Jóhannsson í Bang Gang, Sin Fang, JFDR, IamHelgi og fleiri. Jógatíminn verður í umsjón Yoga Shala.

Viðburðurinn hefst klukkan 10:00 þann 19. Október og lýkur kl. 10:00 daginn eftir. Ekki verða seldir miðar á viðburðinn, en hótelgestir komast inn og sömuleiðis þeir sem kaupa sér aðgang að hádegishlaðborðinu á Fosshótel Húsavík.

Nánari upplýsingar á islandshotel.is/droneyoga – www.droneyoga.is

eða hjá Barða Jóhannssyni, bardi@islandshotel.is

Auglýsing

læk

Instagram