„Ég ólst upp við mikið líf og fjör í eldhúsinu“

Anna Margrét Magnúsdóttir hefur marga bolta á lofti en hún starfar sem hjúkrunarfræðingur, skyndihjálparleiðbeinandi og meðhjálpari. Hún hefur gaman af að baka og segist elska að bjóða í mat og kaffi og hafa gaman með fólkinu sínu. Sjálf ólst hún upp við mikið líf og fjör í eldhúsinu og því kannski ekkert skrýtið að bakstur og eldamennska sé með því skemmtilegra sem hún geri.

Anna Margrét gefur lesendum Vikunnar þrjár guðdómlegar uppskriftir; að litlum pavlovum með Marskremi, Daim-rjóma og berjum, skyrtertu með karamelluseruðum eplum og kanilkexi og jólalegri brauðtertu með hangikjöti og salati.

Fjölskylduhagir?
„Ég er gift Magnúsi Hlyni og við eigum fjóra syni; Fannar Frey, Arnar Helga, Veigar Atla og Unnar Örn, tengdadæturnar Bryndísi Hong, Helgu Rún og Sólrúnu. Ömmu- og afastrákarnir okkar eru Ómar Elí og Martin Ísak.“

Áhugamál?
„Ó, það er svo margt sem mér finnst skemmtilegt. Mest elska ég fjölskyldustundirnar, stórar sem
smáar. Svo geri ég mikið af því að bjóða í mat og kaffi, veislur og alls konar hittinga. Ég elska að baka og elda, hlæja og hafa gaman með fólkinu mínu.

Uppáhaldsjólasveinn?
„Ég elska Stúf, mér finnst hann bara svo krúttlegur og uppátækjasamur, en ég hef alltaf haldið
mikið upp á Kertasníki síðan hann skildi eftir glænýja svarta skauta undir jólatrénu til mín, þegar
ég var 9 ára.“

Uppáhaldsjólamynd?
„Ég horfi alltaf á Christmas Vacation, það er æðisleg mynd. Eins horfi ég alltaf á alla vega eina
Home Alone-mynd og svo Grinch.“

Er eitthvað jólalag í uppáhaldi hjá þér sem kveikir jafnvel sérstakar minningar um jólin?
„Þau eru svo mörg í uppáhaldi, enda byrja ég að hlusta á þau um eða eftir verslunarmannahelgina. Ef ég nenni er í sérstöku uppáhaldi, ásamt All I want For Christmas Is You með Mariuh Carey, en synir mínir og tengdadætur sömdu íslenskan texta um mig við það lag, þegar ég varð fimmtug fyrir tveimur árum, skelltu sér í stúdíó, tóku lagið upp og fluttu í veislunni. Þetta var algjörlega frábært. Í því afmæli, sem var um miðjan september, var einmitt jólaþema, allt skreytt frá A-Ö og þarna var líka hljómsveit sem tók m.a. nokkur jólalög. Þetta var algjör draumur sko.“

Hvað hafið þið í jólamatinn á aðfangadagskvöld?
„Flestir á heimilinu borða hinn hefðbundna svínahamborgarhrygg, með brúnuðum kartöflum, sveppa- eða rauðvínssósu, eplasalati og heimagerðu rauðkáli. Einn sonur minn er hins vega lítið fyrir slíkan hátíðarmat og borðar alltaf grænmetisbuff á aðfangadagskvöld og hefur gert í mörg ár, þó svo að hann borði alveg kjöt og fisk dagsdaglega. Meðlætinu deilir hann samt með okkur. Jólabúðinginn borðum við svo síðar um kvöldið á æskuheimili mínu, hjá foreldrum mínum.“

Áttu þér einhverjar sérstakar hefðir fyrir hver jól?
„Ég er alveg svakalega mikið jólabarn og hef alltaf verið. Ég byrja að skreyta um 20. október ár hvert. Ég baka oft margar smákökusortir sem klárast jafnóðum og finnst mér það frábært. Mitt mottó er að byrja snemma að undirbúa jólin til þess að njóta með fólkinu mínu. Ég held ekki jólin inni í skápum eða ofan í skúffum og þess vegna legg ég ekki áherslu á að þar sé allt hvítþvegið. Jólaundirbúningurinn á að vera notalegur og eitthvað sem við ráðum við. Við eigum ekki að taka þátt í kaupæðinu eða lífsgæðakapphlaupinu fyrir jólin nema við viljum það og höndlum. Það er mitt mat allavega. Samanburður við næsta mann er heldur ekki alltaf hjálplegur, sérstaklega í kringum jólahátíðina. Ég geri það sem mér þykir skemmtilegt og notalegt og nýt í botn með alls konar fjölskylduhittingum og samverustundum, sem þurfa hvorki aðvera skipulagðar né dýrar. Við förum einnig í kirkjugarðinn og minnumst látinna ættingja. Stundum förum við á tónleika fyrir jólin, stundum á jólahlaðborð en oft, alls ekki. Ég föndra jólakortin mín yfirleitt alltaf sjálf og hef sent myndir af strákunum okkar með kortunum í 31 ár. Mér finnst svo gaman að senda og fá jólakort.“

Hvað finnst þér skemmtilegast við jólin?
„Fjölskyldustundirnar. Aðventan finnst mér geggjuð, ég nýt hennar svo mikið. Að fá gesti og vera gestur finnst mér svo gaman. Ég kýs að hafa aðventuna ekki pakkaða af viðburðum. Svo er ég líka svo heppin að vera partur af samheldinni fjölskyldu og ég met það mikils. Ég átta mig á að það eru ekki allir svo heppnir og það er ekki sjálfgefið.“

Hvenær byrjaðir þú að baka?
„Ég ólst upp við mikið líf og fjör í eldhúsinu. Hún mamma mín er snillingur í eldhúsinu, er og hefur alltaf verið síbakandi og pabbi er henni til aðstoðar. Ég man bara ekki eftir mér nema eitthvað að fylgjast með henni og að taka þátt. Eftir að ég fór sjálf að búa hefur þessi áhugi minn bara vaxið og vaxið. Mér finnst bakstur og eldamennska með því skemmtilegra sem ég geri.“

Eiga uppskriftirnar sem þú gefur lesendum einhverja sögu?
„Nei, í rauninni ekki, nema skyrtertan, en fyrir u.þ.b. 4 árum tók ég þátt í osta- og skyrtertukeppni á Kaffi Krús á Selfossi. Ég vann ekki en hlaut samt verðlaun fyrir hana. Þessa er bæði hægt að bera fram í fallegu formi eða í glösum, hér er hún borin fram í gömlu ilmkertaglasi úr Ikea, sem auðvitað er búið að þrífa vel áður. Það besta er að hún er svolítið svona jólaleg á bragðið, þ.e. með blöndu af kanil, eplum og karamellu. Ég elska að gera brauðtertur og vann í haust eldfjallabrauðtertukeppni á Facebooksíðunni Brauðtertufélag Erlu og Erlu. Pavlovur finnast mér alltaf svo hátíðlegar og smart á borði og þessar mini pavlovur sem ég gef uppskrift að eru bæði ofsalega fallegar á borði og góðar.“

MINI PAVLOVUR MEÐ MARSKREMI, DAIM-RJÓMA OG BERJUM

 

u.þ.b. 15 stk.
8 miðlungsstórar eggjahvítur, við stofuhita
1 ½ bolli sykur
1 msk. vanilludropar
1 msk. sítrónusafi
2 tsk. maizena-mjöl

Aðferð:
Hitið ofninn í 90°C með blæstri. Þeytið eggjahvíturnar í u.þ.b. 1 mín. þangað til froða fer að myndast. Þeytið áfram á miðlungshraða og bætið sykrinum út í, smátt og smátt í einu. Þeytið í 10 mín. á fullum hraða. Bætið vanilludropum og sítrónusafa út í með sleikju og blandið varlega saman. Bætið að síðustu maizenamjölinu út í með sleikju og blandið varlega saman. Notið stút til að mynda pavlovurnar á ofnplötu, klædda bökunarpappír, myndið þær þannig að þær séu lægri í miðjunni. Bakið í 75 mín, hafið inni á meðan ofninn kólnar. Hægt er að baka tvær ofnplötur í einu.

MARSKREM
3 stk. Mars-súkkulaði
1,5 dl rjómi
Sjóðið saman við vægan hita þar til fer að þykkna (athugið að blandan þykknar líka við að kólna).

DAIM-RJÓMI
1 poki Daim-kurl
4 dl rjómi
Malið Daim-kurlið í matvinnsluvél. Þeytið rjómann. Blandið malaða Daiminu varlega saman við þeytta rjómann.

SKRAUT
um 10 fersk jarðarber, skorin í sneiðar
um 15 fersk bláber
um 15 fersk myntulauf
örlítið af flórsykri

SAMSETNING
Setjið Mars-krem ofan í pavlovurnar og aðeins út á hliðar. Sprautið Daim-rjómanum úr sprautupoka með stút ofan í kökurnar, þar til hann myndar fjall. Komið berjunum og laufinu fyrir ofan á rjómanum og stráið flórsykri yfir. Athugið að best er að setja rjómann á a.m.k. 3-5 klst. áður en pavlovurnar eru bornar fram. Geymið í kæli.

JÓLALEG BRAUÐTERTA MEÐ HANGIKJÖTI OG SALATI

 

4 rúllutertubrauð
10 egg, harðsoðin
2 dósir gulrætur
2 dósir grænar baunir
Aromat-krydd, eftir smekk
1 tsk. svartur mulinn pipar
um 8-10 msk. japanskt majónes (má vera venjulegt)
1 dós sýrður rjómi, 18%
5-8 msk. venjulegt majónes
14-16 sneiðar hangikjötsálegg

Aðferð:
Skerið harðsoðin eggin smátt. Síið vökvann frá gulrótunum og grænu baununum. Þerrið baunirnar með eldhúspappír. Skerið hangikjötssneiðarnar í bita. Blandið öllu saman og smakkið til. Magn majónessins fer eftir áferð og þykkt þess. Kælið. Skerið brauðtertubrauðin út í hring, með matardiski að utanverðu og passlegri skál að innanverðu. Brauðtertan samanstendur því af 4 lögum af brauði og 3 lögum af salati. Kælið yfir nótt áður en hún er skreytt.

SKRAUT
majónes til að smyrja utan á brauðtertuna
2 stór harðsoðin egg
1 lítil dós niðursoðnar ferskjur
salatblöð
4 litlir konfekttómatar
1/4 gúrka
lítill bútur af rauðri papriku
laufblöð af ferskri myntu
3 lúkur af muldum Pikknikk-kartöflustráum
5 sneiðar hangiáleggssneiðar utan á hringinn og inn í hann

Aðferð:
Smyrjið brauðtertuna með venjulegu majónesi. Skreytið að vild og dreifið svo kartöflustráunum á
tertuna rétt áður en hún er borin fram. Þar sem að mér fundust hliðarnar ekki nógu fallegar, skar
ég ræmu úr afganginum af brauðtertubrauðinu og lagði á hliðarnar og einnig að innanverðu. Utan um kökuna setti ég svo smelluformshring úr IKEA til að halda brauðinu og að innanverðu setti ég passlegt glas. Þannig geymdi ég hana yfir nótt. Þegar ég svo tók hringinn og glasið hélst brauðið alveg og kakan var jöfn og falleg.

SKYR “TERTA“ MEÐ KARAMELLUSERUÐUM EPLUM OG KANILKEXI

Uppskriftin passar í 3 glös

KARAMELLUSERUÐ EPLI
75 g smjör
6 msk. síróp
2 dl rjómi
2 græn epli

Aðferð:
Sjóðið allt nema eplin við lágan hita þangað til blandan fer að þykkna (athugið að hún þykknar
líka heilmikið þegar hún kólnar). Afhýðið eplin og skerið niður í frekar litla bita. Bætið eplabitunum
við karamellublönduna síðustu 2 mín. Veiðið eplin upp úr. Látið karamelluna og eplin kólna við stofuhita.

KARAMELLUSERUÐ EPLI
2,5 dl rjómi
2 litlar dósir Ísey-skyr með bökuðum eplum
um 10 stk. Lu-kanilkexkökur

Aðferð:
Þeytið rjómann. Blandið skyrinu varlega en vel saman við rjómann. Setjið kexið í poka, lokið og myljið það smátt með kökukefli.

SAMSETNING
Setjið slatta af kexmulningnum í botninn. Setjið 3 msk. af skyrblöndunni þar ofan á. Setjið svo 1 msk. af eplunum yfir. Setjið næst 3 msk. af skyrblöndunni ofan á. Setjið svo restina af eplunum yfir og síðan karamellusósu þar ofan á eftir smekk. Stráið kexmulningi yfir til að toppa dásemdina og einnig er gott að stinga eins og ⅓ af Lu-kexköku ofan í líka. Kælið í a.m.k. 30 mín. áður en borið fram.

Auglýsing

læk

Instagram