Góssentíð í Vinabæ

Hljómsveitin GÓSS heldur viðhafnartónleika í Vinabæ í Skipholti, laugardaginn 19 október næstkomandi. Tónleikarnir hefjast klukkan 16:00 og innifalið í miðaverði eru brauðtertur, kökur og kaffi sem verða á boðstólum í hléi.

Tónleikarnir eru einhvers konar síðbúnir útgáfutónleikar fyrir plötuna Góssentíð sem kom út snemmsumars. Frá útkomu plötunnar hefur sveitin nefnilega ekki haldið neina tónleika í Reykjavík því hún vildi finna rétta salinn. Og hann er núna fundinn; hinn stórkostlegi salur Vinabæjar, sem er helst þekktur fyrir bingókvöld sín en áður hýsti salurinn starfsemi Tónabíós.

Hljómsveitin GÓSS er tríó, skipað þeim Sigríði Thorlacius, Sigurði Guðmundssyni og Guðmundi Óskari Guðmundssyni. Er nafn sveitarinnar einmitt sett saman úr fyrstu stöfunum í nöfnum meðlima.

Þau Sigríði Thorlacius og Sigurð Guðmundsson þarf vart að kynna en þau hafa lengi verið á meðal dáðustu söngvurum þjóðarinnar. Guðmundur Óskar er einn fremsti og fjölhæfasti bassaleikari landsins en hann hefur leikið með ótrúlegum fjölda hljómsveita, auk þess að vinna sem upptökustjóri fyrir fjölmörg verkefni.
Sveitin tengist sterkum fjölskyldu- og vináttuböndum en Guðmundur Óskar og Sigurður eru bræður, Sigríður og Guðmundur eru saman í Hjaltalín og öll þrjú hafa þau unnið saman í fjölmörgum mismunandi verkefnum. Það má því segja að það hafi verið nokkuð fyrirsjáanlegt þegar hljómsveitin GÓSS varð til sumarið 2017. Þá lét sveitin draum verða að veruleika og hélt í tónleikaferð um landið. Sveitin hefur síðan ávallt farið í sumartónleikaferð um landið við góðan orðstír, auk þess að spila við alls kyns tilefni um land allt.

Góssentíð er fyrsta plata sveitarinnar og inniheldur nokkrar af uppáhalds íslensku dægurlagaperlum hljómsveitarmeðlima, eða allt frá Ó, blessuð vertu sumarsól og Sólkinsnætur til Stjórnarinnar, NýDanskrar, Spilverk þjóðanna og alls konar þar á milli. Reyndar fær eitt lag með Leonard Cohen að fylgja með.

Tónleikarnir í Vinabæ hefjast kl. 16:00 eins og áður segir, og húsið opnar hálftíma fyrr. Leikin verða lög af plötunni Góssentíð auk þess sem annað góss mun fylgja með á prógramminu. Miðaverð er krónur 3.990- en miðaverð fyrir börn yngri en 16 ára er krónur 1.000- (greitt við hurð).

Auglýsing

læk

Instagram