Hjólaskautahöll í Reykjavík

Þau hjá Roller Derby Iceland eru að opna hjólaskautahöll!

„Við erum alveg ótrúlega spennt og langar að segja sem flestum frá þessu svo að allir viti af,“ segir í tilkynningu frá Roller Derby Iceland. En þau tóku við lyklunum af nýju húsnæði við Sævarhöfða fyrir rúmri viku og er nú unnið hörðum höndum að því að gera allt klárt fyrir opnun.

„Með opnun nýrrar hjólaskautahallar mun 80’s roller disco koma aftur! Þið getið dustað af gömlu skautunum eða fengið að leigja hjá okkur, mætt og rifjað upp gamla takta.

Einnig ætlum við að hefja skautanámskeið og jafnvel frístundanámskeið fyrir krakka næsta sumar. Nokkrir í félaginu eru með kennslu- eða þjálfaramenntun og réttindi til að vinna með börnum svo ungarnir verða öruggir í okkar höndum.

Nú fyrir þau sem langar í meiri hasar erum við með Roller Derby lið sem hefur keppt mikið bæði innanlands og erlendis. Við erum sífellt að leita að nýjum einstaklingum sem vilja koma og berjast með okkur. Engin krafa er um að hafa áður verið í íþróttum, nokkrir rosa góðir skautarar úr liðinu okkar höfðu aldrei stundað íþróttir fyrr en þau byrjuðu í derby. Allir eru velkomnir, óháð kyni, kynhneigð, kyngervis, uppruna, samfélagsstöðu eða líkamsbyggingu!“

Félagið er íþróttafélag sem heldur utan um iðkun hjólaskautaats (Roller Derby) hér á landi. Það var stofnað árið 2011 þegar Ice Sickle (Guðný Jónsdóttir) flutti íþróttina heim frá Atlanta í Bandaríkjunum. Lítill hópur hóf að æfa í bílakjöllurum borgarinnar en síðan þá hefur hreyfingin vaxið töluvert. Félagið telur í dag um 50 meðlimi, en það samanstendur af skauturum, skautandi dómurum, brautarteymi, þjálfurum og sjálfboðaliðum sem gegna ýmsum hlutverkum og mynda samheldið og lifandi samfélag. Hjólaskautafélagið er núna með tvö kvennalið (18 ára og eldri). Heimaliðið Ragnarök keppir reglulega við lið utan úr heimi og landslið Team Iceland Roller Derby hefur tekið þátt í heimsmeistara- og Evrópumóti í íþróttinni. Árið 2018 varð félagið hluti af ÍSÍ og ÍBR og snemma árið 2019 fullgildir meðlimir í alþjóðlegu samtökunum WFTDA (Women’s Flat Track Derby Association) sem voru stór skref fyrir lítið félag

Enn sem komið er býður Hjólaskautafélagið aðeins upp á starf fyrir fullorðna aðila, 18 ára og eldri, en lengi hefur stefnan verið sett á að stofna ungliðadeild (e. Junior Derby) innan félagsins. Junior Derby er hjólaskautaat fyrir börn þar sem stuðlað er að öryggi yngri iðkenda með enn strangara regluverki en því sem farið er eftir í fullorðins hjólaskautaati. Hér má sjá kynningarmyndband um hjólaskautaat fyrir börn og unglinga frá Thunder Bay í Ontario, Kanada.

Hér má finna frekari upplýsingar um Roller Derby Iceland:

http://www.rollerderby.is

https://www.facebook.com/RollerDerbyIceland

https://www.facebook.com/teamicelandrollerderby

Auglýsing

læk

Instagram