Íbúð með karakter í gamla bænum í Hafnarfirði

Auglýsing

Endurbirt úr tímariti Húsa og híbýla


 

Í reisulegu húsi í gamla bænum í Hafnarfirði býr Sóley Þráinsdóttir vöruhönnuður ásamt fjögurra ára syni sínum Jökli. Húsið, sem stendur við Austurgötu, var byggt árið 1919 og á sér því langa sögu og hefur gengt ýmsum hlutverkum í gegnum árin. Þetta er eitt af fyrstu húsunum í byggðinni, steinsteypt og tignarlegt en það var hannað og byggt undir áhrifum þjóðernisrómantíkur. Austurgatan er þröng og sjarmerandi sem er einkennandi fyrir gamla bæinn og er byggingarstíll húsanna einkar fjölbreyttur en mörg þeirra hafa haldið sinni upprunalegu mynd að miklu leyti.

Það var Hjálpræðisherinn sem byggði húsið upphaflega sem sjómanna- og gistiheimili en samkvæmt minjastofnun tók bærinn húsnæðið á leigu árið 1927. Þá var það notað undir berklahæli og árið 1935 var það gert að elliheimili. Á árunum 1935-1953 var þar starfrækt almenningsmötuneyti auk þess sem bæjaryfirvöld leigðu út nokkur rými undir félagsíbúðir. Það var svo í kringum 2004 sem bærinn keypti húsið og þá var það allt gert upp og því breytt í íbúðarhúsnæði. „Það var einhver sem sagði mér að hver íbúð hafi áður verið hólfuð niður í nokkur smærri rými,” nefnir Sóley en íbúðin hennar er í heildina um 68 fermetrar að stærð.

Auglýsing

 

„Þessi íbúð væri ekki það sem hún er án lofthæðarinnar og glugganna”
Sóley keypti íbúðina árið 2016 og hefur smám saman verið að dytta að hinu og þessu og komið upp með ýmsar sniðugar og ódýrar lausnir. „Þegar húsið var gert upp og endurskipulagt var lagt upp með að hafa allt nokkuð stílhreint sem ég hef að miklu leyti haldið í. Hins vegar voru allskonar ólíkar viðartegundir í hurðum og innréttingum. Hurðarnar voru fljótlega málaðar hvítar ásamt fataskápum og það létti heilmikið á rýminu. Eldhúsinnréttingin er frá árinu 2004 en ég málaði hana einnig hvíta og svo er borðplatan heimagerð úr krossviði og línóleumdúki. Draumurinn er að ráðast í frekari framkvæmdir á eldhúsinu en baðherbergið var tekið í gegn í fyrra.” Hún segist nokkurn veginn hafa séð fyrir sér það sem hún vildi gera en þykir að sama skapi mikilvægt að kynnast og aðlagast rýminu fyrst.

 

Íbúðin er sjarmerandi en hún er nokkuð óvenjuleg í laginu, gluggasetningin er falleg og er lofthæðin tæpir þrír metrar. „Þessi íbúð væri ekki það sem hún er án lofthæðarinnar og glugganna en þetta er í raun mjög sérstök íbúð. Ég var meðvituð um að hún væri frekar lítil en það sem seldi mér hana var hvað það er gott andrúmsloft hérna,” útskýrir Sóley. Hún ólst sjálf upp í Hafnarfirðinum og sótti hún að eigin sögn ómeðvitað aftur í heimahagana. „Foreldrar mínir og systir búa hérna rétt hjá og einnig fjölskylda stráksins míns sem er mjög þægilegt. Miðbærinn umlykur mann en hér hefur mikil uppbygging átt sér stað. Það er ýmislegt í göngufæri, leikskólinn er hérna rétt hjá, bókasafn og lítill verslunarkjarni, svo er stutt á strætóstoppistöð sem er afar hentugt. Ég hef svolítið fengið að fylgjast með hverfinu byggjast upp og svo er margt á döfinni sem heldur manni líka. En fyrst og fremst líður okkur bara svo ótrúlega vel hérna,” bætir hún við og brosir.

Fjölnota húsgögn og hönnunargripir
Það er óhætt að segja að Sóley hafi góða tilfinningu fyrir umhverfi sínu en hver hlutur hefur verið valinn inn á heimilið af kostgæfni. Aðspurð segir hún húsgögnin vera samtíning héðan og þaðan sem hún hefur bæði keypt sérstaklega inn í íbúðina auk ýmissa gersema sem hún hefur fengið frá foreldrum sínum og öðrum fjölskyldumeðlimum. „Af því að íbúðin er lítil þá skiptir mig máli að stofurýmið sé fjölnýtanlegt þ.e. að ég geti hæglega fært til húsgögnin og breytt.

Mér finnst til dæmis mjög gaman að bjóða vinkonum mínum heim og þá er auðveldlega hægt að rótera þannig að allir komist fyrir,” segir hún. Aðspurð segist Sóley hafa prófað ýmsar útfærslur af uppröðun og fikrað sig áfram að þeirri útkomu sem við sjáum í dag.

„Fyrst fékk ég gefins ferkantað borðstofuborð en ég sá fljótlega að hringborð hentaði betur hérna inn,” tekur hún sem dæmi. „Ég hef smátt og smátt fjárfest í húsgögnum sem mér finnst virka vel fyrir rýmið. Það er til að mynda ekkert svo langt síðan ég keypti sófann í stofuna, en það var gert í áföngum. Ég vissi að ég vildi einingasófa sem ég gæti fært til. Sófaborðið keypti ég af ástæðu en það er á hjólum, og svo get ég notað neðri bakkann á sófaskemilinn.” En borðið sem um ræðir er dönsk hönnunarklassík frá árinu 1963 eftir arkitektinn Hans Bølling.

 

Borðstofustólarnir eru einnig dönsk hönnun og koma frá foreldrum hennar. „Þau kynntust í Danmörku þegar þau voru ung og fjárfestu í allskonar mublum sem þau fluttu síðan heim, en pabbi er arkitekt og hann og mamma hafa mikinn áhuga og gott auga fyrir fallegri hönnun. Stólarnir höfðu svo verið í geymslu í nokkur ár og biðu eftir að einhver af okkur systkinunum gæti notað þá. Ég hef aldrei tímt að skipta þeim út. Þeir eru líka svo léttir og hafa falleg form.” Hillan í stofunni er úr Módern og er eins og sniðin inn í rýmið. Hún var alveg fjárfesting en það er hægt að bæta við hillueiningum, svo er hún grunn og einföld í hönnun sem hentar rýminu vel. Ég hef líka hugsað það þannig að ef ég flyt í stærra húsnæði þá er ég með klassískar mublur sem geta virkað hvar sem er.”

Marga áhugaverða hluti er að finna í hillunni og segir Sóley þá flesta hafa einhverjar sögur á bak við sig eða vekja upp minningar. „Þegar ég hef farið erlendis á nýja staði þá finnst mér gaman að kaupa mér einhverja hönnunarvöru og minjagripi frá heimafólki, til dæmis keramík- eða myndlistarverk,” bætir hún við.

 

„Svo fá Sindri og Sóley sinn stað,” heldur hún áfram glöð í bragði og er þá að vitna í íslensku hönnunarstólana í stofunni sem hafa báðir vakið mikla athygli hér heima og erlendis í gegnum tíðina. „Ég erfði Sindrastólinn frá bróður ömmu minnar,” en hann var hannaður af Ásgeiri Einarssyni á 7. áratug síðustu aldar. Þá var Sóleyjarstólinn hannaður 1983 af Valdimari Harðarsyni arkitekt og seldur víða um heim.

„Ég keypti hann notaðan en mér hefur alltaf fundist hann svo fallegur. Það var alltaf markmið að eignast að minnsta kosti einn svona stól þó það væri gaman að eignast fleiri sem og borðið í stíl sem er orðið frekar sjaldgæft í dag.“

Hvert rými úthugsað
Það er yfirvegað andrúmsloft á heimilinu, látlausir litir eru í forgrunni sem tóna vel við innbúið. „Stíllinn hefur einhvern veginn þróast þannig að ég vel frekar hlutlausa liti í kringum mig, ég hef alltaf vitað að ég vil bara hafa hvíta veggi, allavega inni í alrýminu. Grár hefur ómeðvitað orðið ákveðinn undirtónn hjá mér án þess að hann sé áberandi sem býður síðan upp á meira líf og skærari liti á móti. Viðurinn dregur svo fram hlýju inn í rýmið.”

Fleiri verk frá íslenskum hönnuðum er að finna í íbúðinni, til dæmis eftir Lilý Erlu Adamsdóttur myndlistarkonu, Studio Fléttu og vöruhönnuðinn Brynhildi Pálsdóttur. „Mér finnst líka gaman að sanka að mér hlutum frá fólki sem ég þekki. Ég kynntist til dæmis Lilý Erlu í fyrra og þar af leiðandi verkunum hennar. Svo eru stelpurnar í Studio Fléttu góðar vinkonur mínar.” Mynd eftir Godd, Guðmund Odd Magnússon, listamann og prófessor í grafískri hönnun, setur svo sterkan svip á stofurýmið.

„Hún var það fyrsta sem fór upp í íbúðinni og það eina sem hefur fengið að vera algjörlega kyrrt á sínum stað og ég hef kannski ómeðvitað unnið rýmið í kringum hana því hún er svo litrík,” segir hún og bætir við: „Svo er þetta bara samblanda af allskonar, allt frá IKEA-húsgögnum til hönnunarmuna.”

Hér má sjá myndina eftir Godd og stjaka frá Studio Fléttu.

Ferjaði keramíkstell í bakpoka frá Asíu
Það skiptir Sóleyju máli að takmarka áreiti og vera þar af leiðandi ekki umkringd of miklu dóti. „Ég vildi hafa opnar hillur inni í eldhúsi og leyfa þar fáum en fallegum hlutum að njóta sín, þá myndast síður óreiða,“ útskýrir hún. Eldhúshillan er úr IKEA og smellpassar þar inn. Bollastellið sem við sjáum í hillunni kom Sóley með sér heim eftir ferðalag um Asíu. „Þegar ég og vinkona mín vorum í Víetnam þá rakst ég á lítið keramíkverkstæði og heillaðist algjörlega af þessu stelli. Ég keypti hluta af því beint frá þeim og flutti með mér heim eftir bakpokaferðalag. Fyrir algöra tilviljun rakst ég svo á þetta stell í íslenskri verslun en þá hafði eigandinn sankað að sér restum af lager frá þessum aðila þannig ég náði að bæta við safnið. Mér finnst líka gaman að eiga hluti sem ekki allir eiga inn á milli.

Ég safnaði til dæmis þessu matarstelli úr Góða hirðinum sem var framleitt af Glit á sínum tíma.” Þá nefnir hún jafnframt að hún hafi alltaf passað upp á að hlutirnir á heimilinu eigi nokkurn veginn sinn stað sem gerir það að verkum að aðgengið verður betra og það safnast ekki fyrir óþarfa dót. „Þá er líka auðveldara að gera fínt, ég er kannski ekki ofurskipulögð þegar kemur að heimilinu en mér líður samt best þegar hlutirnir eru nokkurn veginn í reglu,” bætir hún við og hlær. „Ég er með margar svona „millistöðvar” á heimilinu, nóg af snögum inni í svefnherbergi til dæmis, en mér finnst alveg fínt að geta hent af mér fötunum því ég er ekki týpan sem er alltaf að brjóta saman og raða inn í skáp. Þá get ég hengt af mér og engin föt eru á stólum eða á gólfinu. Ég held að ég hafi ómeðvitað sett þetta upp svona og á þann hátt helst heimilið samt sem áður snyrtilegt.”

 

Bollastellið ferjaði Sóley með sér heim eftir bakpokaferðalag um Asíu. Matarstellið var framleitt af Glit.

 

Sköpunargleðin aldrei langt undan
Sóley útskrifaðist sem vöruhönnuður frá Listaháskóla Íslands árið 2017 og hefur síðan þá verið með annan fótinn í ýmiskonar vöruþróun, samhliða annarri vinnu. „Haustið eftir útskrift fór ég að starfa hjá Listaháskólanum, en vann svo lengi sjálfstætt í ýmsum verkefnum. Á sama tíma hélt ég áfram að þróa lokaverkefnið mitt sem gengur út á að kortleggja möguleika á nýtingu á íslenskum afurðum í hreinlætisvörur og hefur fengið nafnið Dust. Ég hef verið að sinna því þegar ég hef haft tíma og fjármagn til. Ég fékk styrki fyrir verkefninu sumrin 2020 og 2021 og sýndi hluta af því á HönnunarMars síðast liðið vor en ég á svo eftir að „launch-a” því einn daginn.

Ég hef alltaf verið svolítið feimin við það og önnur verkefni hafa gengið fyrir. Núna er ég síðan í fullu starfi og er samhliða því að klára mastersnámið mitt. Það er því nóg að gera en stefnan er samt að Dust verði að veruleika þegar tími gefst til en það má segja að ég þrífist svolítið á því að hafa eitthvað skapandi verkefni á hliðarlínunni. Svo fæ ég líka ákveðna útrás fyrir það á heimilinu. Ég er mikill nostrari í mér og það skiptir mig máli að hafa fínt í kringum mig. Hér eru öll skot og smáatriði útpæld en ég er alveg búin að vanda mig við að velja hluti og húsgögn inn í þetta rými,” segir hún og brosir. „Heimilið er minn griðastaður og mér finnst skipta máli að hafa notalegt í kringum mig og að hingað sé gott að koma eftir langan dag.”

Mikilvægt að kynnast rýminu
Með næmu auga og góðri rýmistilfinningu hefur Sóley náð fram góðu jafnvægi á heimilinu en hún segir það oft geta skipt sköpum að læra inn á og aðlagast húsakostinum áður en hafist er handa. „Mér finnst mikilvægt að lenda aðeins þegar maður kemur á nýjan stað, kynnast íbúðinni og sjá hvernig rýmið virkar fyrir þig eftir ákveðinn tíma.

Ég er með allskonar sniðugar lausnir í kollinum og margt sem mig langar að gera þó ég sé orðin mjög sátt eins og þetta er í dag,” segir hún að lokum.

Baðherbergið var nýlega tekið í gegn. Flísarnar eru frá Álfaborg.

 

Umsjón/ María Erla Kjartansdóttir 
Myndir/ Rakel Rún Garðarsdótti

Auglýsing

læk

Ummmmm...

Instagram