Kennarar í Valhúsaskóla hættu við kennslu í dag

Nemendur Valhúsaskóla, Grunn­skóla Sel­tjarnar­ness, voru sendir heim í dag sökum neikvæðrar um­fjöllunar um skólann síðustu daga.

Forsagan er sú að for­eldrar tíundu bekkinga kvörtuðu til skólans, bæjar­yfir­valda og mennta­mála­ráðu­neytisins í vor vegna mikillar ó­á­nægju með náms­mat. Að mati foreldrafélags Grunnskóla Seltjarnarness gaf námsmatið í vor ekki rétta mynd af stöðu nemenda. Þá taldi félagið að nemendum hafi ekki verið gefinn kostur á að bæta sig. Vegna þess hafi nemendur skólans ekki átt sömu möguleika á að komast inn í þann framhaldsskóla sem þeir helst kysu, samanborið við jafnaldra sína.

Á bæjar­stjórnar­fundi síðast­liðinn mið­viku­dag var fjallað um greinar­gerðina og sagðist meiri­hluti Sjálf­stæðis­flokksins harma á­greining um náms­matið. Þá voru for­eldrar og tíundu bekkingar beðnir af­sökunar á því til­finninga­legu tjóni og ó­þægindum sem náms­matið hafði í för með sér.

Finnst kennurum og stjórnendum grunnskólans að sér vegið af pólítískum fulltrúum á Nesinu og harma þann dóm sem þau segja bæjarfulltrúa hafa fellt með því að biðja nýútskrifaða 10. bekkinga og foreldra þeirra afsökunar á dögunum.

„Kennarar og stjórnendur í Grunnskóla Seltjarnarness harma þann dóm sem pólitískir fulltrúar á Seltjarnarnesi hafa fellt yfir skólanum sínum. Þessi umfjöllun hefur haft þau áhrif inn í skólann að kennurum og stjórnendum finnst freklega að sér vegið og kennarar treysta sér ekki til að taka á móti nemendum í dag. Skólastarf mun því falla niður í dag og upplýst verður um framhaldið þegar það liggur ljóst fyrir,“ segir í bréfinu sem undirritað er af skólastjórnendum.

Þetta kom fram á vef Fréttablaðsins.

Auglýsing

læk

Instagram