Kláraði 1200 grömm af kótilettum á 5 mínútum:„Sennilega er óhætt að gera þetta einu sinni á ári“

Ólafur Þór Gunnarsson, þingmaður Vinstri Grænna, varði titil sinn í kótilettuáti á dvalarheimilinu Hrafnistu þar sem blásið var til kótilettuveislu á afmæli Sjómannadagsráðs. Náði hann að klára 1200 gramma skammt á 5 mínútum og sigraði með yfirburðum.

„Mér líður ljómandi vel, en ég þarf líklega ekki að borða fyrr en einhvern tímann á morgun,“ segir hann. „Mér finnst lambakjöt voðalega gott, hvort það séu kótilettur sem slíkar skiptir ekki öllu máli.“

Ólafur vill lítið gefa upp um hver sé lykillinn að sigri. „Ætli það sé ekki bara að mæta og hafa gaman að þessu,“ segir hann og glottir.

Út frá lýðheilsusjónarmiðum kemur nokkuð á óvart að Ólafur skuli hafa tekið þátt en eins og margir vita er hann öldrunarlæknir að mennt. „Þetta er alls ekki hollt til lengdar,“ segir hann. „Sennilega er óhætt að gera þetta einu sinni á ári, en alls ekki á hverjum degi.“

Vísir var á staðnum og tók upp svipmyndir frá keppninni.

Auglýsing

læk

Instagram