Samúel og Gunnar kaupa þriðjungshlut í Skoti

Auglýsingaleikstjórarnir Samúel Bjarki Pétursson og Gunnar Páll Ólafsson hafa fest kaup á þriðjungshluti í Skoti productions ehf. Skot eignaðist 35 prósent hlut í Nútímanum í mars.

Í tilkynningu frá Skoti kemur fram að um sé að ræða nýtt hlutafé í félaginu en áður áttu þau Hlynur Sigurðsson og Inga Lind Karlsdóttir félagið að fullu.

„Samhliða innkomu Samúels og Gunnars mun Skot taka að sér verkefni á sviði auglýsingagerðar fyrir sjónvarp og internet og byggja upp öfluga liðsheild á þeim vettvangi,“ segir í tilkynningunni.

Skot hefur hingað til einbeitt sér að framleiðslu og þróun á sjónvarpsefni og er með nokkur verkefni á þróunarstigi í samvinnu við sjónvarpsstöðvarnar. Skot og Nútíminn hafa verið í samstarfi um nokkurt skeið um framleiðslu á sjónvarpsefni.

Samúel og Gunnar hafa unnið sem leikstjórateymi í 16 ár. Þeir hafa unnið fyrir mörg stærstu fyrirtækin hér á landi sem og erlendis og jafnframt unnið til fjölda verðlauna fyrir bæði auglýsingar og tónlistarmyndbönd.

Auglýsing

læk

Instagram