Seldi úr og sólgleraugu á götum Aþenu fyrir nokkrum árum – valinn verðmætastur í NBA deildinni í nótt

Giannis Antetokounmpo var í nótt kjörinn verðmætasti leikmaður NBA deildarinnar í körfubolta en þetta eru almennt talin stærstu einstaklingsverðlaun sem körfuknattleiksmaður getur hlotið. Giannis var verðlaunaður fyrir framúrskarandi frammistöðu með liði Milwaukee Bucks í vetur.

Antetokounmpo fæddist 6. desember 1994 í Aþenu en foreldrar hans eru innflytjendur frá Nígeríu. Giannis upplifði mikla erfiðleika í æsku en þrátt fyrir að vera fæddur á Grikklandi fékk hann ekki ríkisborgararétt fyrr en í kringum 18 ára aldur. Hann ólst upp við mikla fátækt í Sepolia hverfinu í Aþenu en eins og margir aðrir innflytjendur á Grikklandi áttu foreldrar hans í erfiðleikum með að finna vinnu. Giannis og bræður hans reyndu því að hjálpa til, meðal annars með því að selja sólgleraugu, töskur, úr og annars konar varning á götum Aþenu.

Árið 2007 hófst körfuboltaferill hans og hefur leiðin aðeins legið upp á við síðan þá. Árið 2013 gekk hann til liðs við Milwaukee Bucks í NBA deildinni og hefur hann vakið gríðarlega athygli síðan þá. Hann hefur meðal annars hlotið viðurnefnið ,,The Greek Freak“ fyrir líkamlega yfirburði sína á vellinum.

Giannis bætist því í hóp manna eins og Larry Bird, Michael Jordan, Lebron James og Kobe Bryant sem allir hafa hlotið titilinn verðmætasti leikmaður NBA deildarinnar.

Auglýsing

læk

Instagram