Stjörnuspá fyrir árið 2023: „Það eru einhverjar breytingar í vændum hjá þér“

Auglýsing

 

Hrúturinn
Seinustu ár hafa einkennst af miklum breytingum í lífi þínu og það hefur verið mikið um að vera en í ár munu stjörnurnar færast í þinn hag og hlutir fara að róast aðeins, það er komin ákveðin rútína í þig. Þú ert loksins kominn á góðan stað hvað varðar starfsferil og ert að finna þína fótfestu þar en ekki gleyma að fá rétta umbun fyrir þá vinnu sem þú gerir. Ýmis tækifæri munu skjóta upp kollinum á árinu og það er undir þér komið að taka við þeim og framkvæma þau. Árið 2023 er ár þroska fyrir þig elsku hrútur og loksins ertu tilbúinn að setja sjálfan þig í fyrsta sæti. Í ár átt þú eftir að vilja skapa dýpri tengsl við fólkið í kringum þig og byggja upp traust samband, með mikilli ástríðu og umburðarlyndi, og þú ert tilbúinn að fara út fyrir það hefðbundna. Ástin sem þú hefur leitað að er nær en þú heldur en kannski ertu þá ekki tilbúinn að takast á við hana ef þú sérð hana ekki. Ef þú setur sjálfan þig ekki í fyrsta sæti, lærir að kunna að meta þinn eigin félagsskap og finnur innri frið mun það koma í bakið á þér og seinni hluti ársins mun einkennast af veikindum, andlegri bugun og jafnvel þunglyndi en það er ólíklegt ef þú heldur þeirri stefnu sem þú ert á núna.

 

Nautið
Það eru einhverjar breytingar í vændum hjá þér árið 2023 en þú þarft að breyta sjónarmiðum þínum til þess að þessar breytingar fari að skila sér. Það eru mörg fjárhagsleg tækifæri sem bíða þín á nýju ári og ef þú tekur réttar, meðvitaðar ákvarðanir átt þú eftir að hagnast meira en þú hefðir getað ímyndað þér. Þú ert samt opin/n fyrir þessum breytingum og tækifærum og skilningur þinn á samskiptum þínum við fólk mun hafa mikil áhrif á það. Þú ert að þroskast en það er mikið um að vera innra með þér og þú ert kannski ekki alveg tilbúin/n að deila lífi þínu með neinum eins og er. Það er líka í lagi en þú átt eftir að kynnast mörgu nýju fólki, ef þú finnur tenginguna vertu þá óhrædd/ur að fylgja því eftir en ekki búa til óraunhæfar væntingar. Næsta ár mun einnig einkennast af mikilli vinnu hjá þér og það mun ekki alltaf ganga vel. Vertu vakandi fyrir þeim verkefnum sem þér bjóðast og lærðu að taka gagnrýni á jákvæðan og uppbyggjandi hátt. Stundum þarf að stíga til baka til að sjá stóru myndina. Nýttu orkuna sem umlykur þig næstu mánuði til að líta inn á við og finna út hvað það er sem gefur þér innblástur og hamingju.

Auglýsing

 

Tvíburarnir
Í byrjun næsta árs munt þú finna fyrir togstreitu í samskiptum þínum við aðra og í sambandi við sjálfan þig sem mun neyða þig til þess að líta betur inn á við, rýna í drauma þína og takast á við ýmis vandamál sem kunna að vera til staðar. Það er mikil óreiða í kortunum á árinu 2023 hjá þér og ekki ólíklegt að þú finnir fyrir aukinni hættu á að misskiljast í samskiptum þínum við aðra. Það er mikilvægt að þú gefir þér tíma og sýnir öðrum þolinmæði því það mun gefa þér tækifæri á að snúa við blaðinu og byggja upp samböndin sem þú þarft á að halda og sem gefa þér þá ást sem þú sækist í. Ekki hika við að losna undan því sem veitir þér ekki hamingju og settu skýr mörk fyrir sjálfan þig. Það eiga ekki allir skilið ástina og tímann sem þú gefur svo vandaðu valið vel þegar kemur að því hverjum þú eyðir tíma þínum með. Ný tengsl, þolinmæði og sjálfsvinna eru einkenni þín fyrir árið en það kemur ekki auðveldlega til þín svo vertu viðbúinn því að finna fyrir óróleika. Þetta er ekki árið fyrir þig til þess að taka að þér stór verkefni eða framkvæma hugmyndirnar þínar því það gæti komið illa í bakið á þér.

 

Krabbinn
Árið 2023 mun einkennast af nýjum tækifærum, nýjum samböndum og nýjum byrjunum fyrir þig elsku krabbi. Það er ekki eins mikið álag á þér á nýju ári og þú ert loksins tilbúinn að leyfa þér að dreyma og jafnvel framkvæma einhverja af þessum draumum. Ýmis tækifæri munu skjóta upp kollinum í gegnum árið en það er vegna þess að þú ert mjög félagslyndur og þú átt eftir að njóta þess að vera í kringum fólk, kynnast nýju fólki og stækka vinahópinn þinn. Á fyrri hluta ársins mun ástin blómstra og þú leyfir þér að vera ástríkari. Þú ert heillandi og orkan þín dregur alls konar einstaklinga sem að þér sem vilja finna fyrir ást þinni. Þú ert þó ekki endilega tilbúinn í að skuldbinda þig svo njóttu þess að fylgja bara straumnum í bili, það þarf ekki alltaf að skilgreina allt og það getur jafnvel valdið þér meira hugarangri en ella. Það er betra fyrir þig að byggja upp traust og innihaldsrík sambönd frekar en að stökkva á eitthvað sem gefur þér ekki hundrað prósent hamingju. Fjárhagsvandamál þín munu einnig batna til muna á árinu en þú verður að vera með opinn huga þegar kemur að nýjum tækifærum til að afla fjár. Árið 2023 mun einkennast af miklum styrkleika, sjálfsöryggi og betrumbættum tengslum við fjölskyldu og vini.

 

Ljónið
Það verða þó nokkur tækifæri fyrir þig á árinu til að taka áhættu en þú átt eftir að finna togstreitu og vera í vafa um hvort það sé þess virði. Það eru mörg ný ævintýri fram undan og það er ákveðin löngun hjá þér að byrja á einhverju nýju eða endurvekja gamla drauma. Þú verður samt tvístígandi í gegnum árið enda ertu orðin mjög meðvitaður um hver þú ert, hver þú vilt vera og hvert þú ert að fara. Það gæti valdið þér kvíða en þú verður þó að leyfa þeim vandamálum að líða hjá, vertu þolinmóður og ekki mikla þessi vandamál of mikið fyrir þér því þau eru ekki endilega eins stór og þú ímyndar þér. Í ástarmálum ertu að leitast eftir dýpri tengingu og þú ert tilbúinn að leggja á þig vinnuna til þess að ekki bara finna hana heldur einnig viðhalda henni svo passaðu þig að láta ekki aðra hafa áhrif á hvern þú vilt elska. Árið 2023 mun einnig einkennast af aukinni þekkingu og þú ert jafnvel tilbúinn að fara aftur í skóla eða læra eitthvað nýtt. Passaðu þig samt að taka ekki of mikið að þér eða ætlast til of mikið af sjálfum þér. Fjárhagur þinn og heimilislíf haldast í jafnvægi ef þú ert sjálfur í góðu jafnvægi.

 

Meyjan
Á árinu 2023 þarft þú að einbeita þér að því að sýna þolinmæði og treysta því að þau plön sem þú ert með muni ganga í gegn. Ekki þvinga samskipti þín og tengingu við aðra heldur skaltu halda þínu striki og þú munt sjá ávinning þess seinna á árinu. Sumarið mun einnig vera tíminn fyrir þig til þess að sækjast í nýtt umhverfi, kynnast nýju fólki og leyfa þér að vera svolítið frjáls því þegar haustið kemur þá finnur þú þörfina á að setja hluti í fastar skorður og fylgja rútínu á ný. Það er þó jákvætt því þá ferð þú inn í nýtt tímabil með ferska sýn á lífið og jafnvel minni kvíða fyrir því sem á eftir að koma. Það er mikil ást og umhyggja í kringum þig líka og þú sækist mikið í að deila henni á næstu mánuðum. Einnig mun árið einkennast af því að þú ljúkir við ákveðin verkefni eða lokar á ákveðna aðila eða aðstæður. Þetta mun hafa áhrif á þig en ekki leyfa þér að loka þig af heldur verður þú að takast á við það sem er í gangi í kringum þig. Þegar einar dyr lokast þá opnast alltaf aðrar. Gættu þess að setja ekki alla orkuna þína í aðra í ár heldur settu hana í sjálfa þig, kláraðu verkefni þín og ekki eyða peningum í óþarfa því seinna mun það koma í bakið á þér.

 

Vogin
Árið byrjar svolítið brussulega hjá þér og þér líður eins og það sé eitthvað að malla í loftinu sem mun hafa djúp áhrif á þig. Þessi tilfinning mun valda því að þér eigi eftir að finnast erfitt að byrja eða klára hluti og það mun draga úr þér kraftinn að vilja taka virkan þátt í lífinu. Ekki leyfa þér að sökkva niður samt og sæktu styrk hjá fólkinu í kringum þig til þess að halda áfram. Það mun koma sér vel að vera félagslyndur og sækjast í viðburði því það gefur þér ekki bara orku til þess að framkvæma þína draum heldur mun það líka gefa þér tækifæri sem þú sást ekki fyrir áður. Ástin mun blómstra þegar líður á sumartímann en það eru ekki allir endilega með þína hagsmuni í huga, veldu vel þann sem þú hleypir að þér svo að þú endir ekki í sárum. Einhver tregi í samskiptum mun vera til staðar en það er vegna þess að þú ert að eiga erfitt að sjá hið jákvæða í lífinu en það tekur líka ákveðna sjálfsvinnu að komast á þann stað. Þú finnur fyrir meiri fókus á öllum sviðum lífsins og sérstaklega þegar kemur að vinnunni. Það gefur þér fjárhagslegt öryggi en ekki búast við að fá allt upp í hendurnar strax.

 

Sporðdrekinn
Þú ert á góðum stað, þú sérð öll þau tækifæri sem eru að bjóðast þér og þú ert tilbúinn að ná lengra í lífinu. Í ár finnurðu fyrir mikilli samviskusemi hvað varðar vinnu og þú tekur eftir því að hún er að skila sér, þetta mun einkenna árið þitt. Það munu þó koma tímar í gegnum árið þar sem orkan þín hverfur og neistinn dvínar, þú verður latari og átt eftir að vilja loka þig af, en þú þarft þá bara aðeins að stíga til baka og vinna í sjálfum þér. Þú ert með skýr markmið og stóra drauma og það mun ekkert standa í vegi fyrir þér á árinu að ná þessum markmiðum. Það munu þó koma upp aðstæður þar sem þú verður misskilinn, tengir illa við aðra og verður of sjálfmiðaður og það gæti komið þér í bobba. Það kemur þó styrkur frá fjölskyldu og vinum ef þær aðstæður reynast þér of erfiðar svo ekki vera feiminn við að biðja um hjálp. Þú hefur mikla ást að gefa en þarft líka að fá mikla ást til baka. Ástin í ár gæti komið úr ólíklegustu átt og það gæti slegið þig út af laginu en ef tengingin er til staðar leyfðu henni þá að þróast og ekki gera of miklar væntingar. Gríptu gæsina á öllum sviðum lífsins og vertu með opinn hug fyrir nýjum tækifærum því árið 2023 er árið þitt.

 

Bogamaðurinn
Um þessar mundir ertu mjög ákveðinn og fullur af orku og mun það setja tóninn fyrir næsta ár hjá þér. Það er mikil jákvæðni í kringum þig og þú átt eftir að skapa mörg gagnleg tækifæri vegna þess á nýju ári. Það er spenna í þér að framkvæma hluti og þú ert með ótal margar hugmyndir sem þú myndir vilja fara lengra með og mun árið 2023 gefa þér tækifæri á því. Einnig er komin ákveðin rútína í starfi og vinnu hjá þér sem heldur þér í góðu jafnvægi en passaðu þig að treysta ekki hverjum sem er því það gæti haft í för með sér alvarlegar afleiðingar í fjármálunum á árinu. Ekki samt stressa þig of mikið á því, vertu bara vakandi fyrir því, þú ert með mikla þrautseigju sem getur komið þér í gegnum ýmsa erfiðleika. Hvað varðar ástina þá er tíminn til þess að dýpka tengsl þín í sambandinu þínu. Ekki gleyma að sýna fólkinu í kringum þig samt skilning, það getur verið gott að fara mjúklega í samræður til að forðast óþarfa ágreining. Fjárhagslega séð mun árið vera nokkuð gott og þú verður skynsamari með peningana þína. Passaðu þig samt að taka ekki of mikla vinnu að þér og gleyma sjálfum þér og þeim sem standa þér næst.

 

Steingeitin
Fyrri hluti ársins 2023 mun einkennast af jákvæðum breytingum þar sem þú ert að einbeita þér að því að taka stjórn á lífi þínu, vera áreiðanlegri og vera til staðar fyrir sjálfa þig og aðra í kringum þig. Þegar líður á árið mun þinn fyrri kraftur koma aftur og þú finnur að þig langar til að framkvæma hugmyndir þínar, fara í ævintýri og þú finnur fyrir mikilli spennu. Passaðu þig samt að búa ekki til aðstæður þar sem þú veist að þú getur orðið fyrir vonbrigðum því það getur dregið þig langt niður. Hverja og hvern þú elskar er einnig að breytast á árinu og fólkið sem þú hefur dýrkað og dáð seinustu ár missir sjarmann sinn á árinu, þú upp-götvar nýtt fólk til að heillast af og það gefur þér aðra sýn á lífið. Ástin er þó ekki í fyrirrúmi á árinu hjá þér heldur er þetta tíminn fyrir þig til að einbeita þér að því að ná dýpri tengslum við fólk og leggja þig fram við að skilja þeirra sjónarmið líka. Í vinnunni færðu kannski ekki starfið sem þú varst að vonast eftir heldur mun það opna augu þín og þú gerir þér grein fyrir hver þín sanna köllun í lífinu er. Það er eins og þú eigir eftir að stíga út úr þokunni og loksins sjá hvað lífið er bjart og skemmtilegt, vertu því opin og jákvæð og allt mun falla í réttan farveg.

 

Vatnsberinn
Þú byrjar árið fullur af orku og drifkrafti, svo mikið að það gæti jafnvel komið þér í smá vandræði. Ef þú ert ekki varkár getur þessi orka snúist gegn þér og þú verður óvarkár, upptrekktur og verður auðveldlega fyrir vonbrigðum. Það besta sem þú getur gert er að finna eitthvað sem gefur þér heilbrigða útrás á þessari orku en það mun líka gefa þér tækifæri á að kynnast sjálfum þér og rækta þín eigin áhugamál. Byrjaðu á að vekja upp gamla drauma áður en þú ferð af stað í að framkvæma nýja, það mun bara valda þér meiri kvíða og áhyggjum sem eru óþarfar. Það gætu verið miklar breytingar í vændum hjá þér í ástarmálum á árinu og ekki ólíklegt að eitthvað, eða einhver sem þú sást ekki fyrir muni skjóta upp kollinum og hrista upp í lífi þínu. Það er undir þér komið hvernig þú tekur á þessu en þetta getur einnig verið gott tækifæri fyrir þig til þess að endurmeta samböndin í lífi þínu og endurmeta hvað þú vilt úr sambandinu. Hvað varðar starfsferil þinn þá er ekkert að standa í vegi fyrir því að þú náir öllum þeim markmiðum sem þú hefur sett þér. Þú átt eftir að búa til tækifærin sem þú þarft og það mun gefa þér fjárhagslegt öryggi í gegnum árið.

 

Fiskar
Þér líður vel með að fara inn í nýtt ár og þú finnur að þú ert með mikla samkennd, mannúðlega ást og vilt fylgja ástinni eftir. Þú ert einnig mjög heimakær um þessar mundir og mun það einkenna árið hjá þér þar sem þú vilt hafa þægilegt og öruggt heimili þar sem þú getur leyft þér að slaka á. Heimili þitt er einnig fólkið sem þú umkringir þig með og tengslin sem þú ert með og þess vegna áttu eftir að rýna mun meira í þessi tengsl á árinu. Þitt meginmarkmið er að búa til öruggt umhverfi fyrir þig til þess að vera skapandi og til að geta fylgt eftir draumunum þínum. Þú átt eftir að kynnast fólki sem vill það sama fyrir þig og jafnvel með þér en það eru ekki allir með þína hagsmuni í huga svo vandaðu valið vel á því hverjum þú hleypir inn á heimili þitt. Ástin á árinu mun vera gamansöm og létt því þú ert tilbúin/n að setja ekki kröfur og pressu á neinn og vilt bara fylgja straumnum. Sú aðferð getur þó haft með sér yfirborðskenndar samræður og inni-haldslaus tengsl svo þú skalt varast hverjum þú reynir að byggja náið samband með. Starfsferill þinn á árinu mun vera mismunandi, það á eftir að ganga vel suma daga og aðra daga áttu eftir að vilja ganga út og gera eitthvað annað svo það er nauðsynlegt að þú sért þolinmóð/ur í gegnum erfiðleikana því á endanum mun þetta allt ganga upp.

Auglýsing

læk

Ummmmm...

Instagram