Svartur á leik 10 ára – Framhaldsmyndir í bígerð: „Nú langar mig að segja söguna alla“

Auglýsing

Framleiðsla er hafin á forsögumynd sem og framhaldi hinnar stórvinsælu Svartur á leik, sem er aftur komin í bíósýningar í ljósi 10 ára útgáfuafmælis. Kvikmyndagerðarmaðurinn Óskar Þór Axelsson segir tímann loks réttan til ráðast í ekki eina, heldur tvær framhaldsmyndir, en hann segist hafa verið með þríleikinn í maganum í nokkur ár.

Í viðtali við Fréttablaðið segir leikstjórinn:

„Einhvern tímann ekkert svo löngu eftir að myndin kom út þá fékk ég þessa hugmynd. Að hætta að horfa til þess að gera framhald um persónurnar, heldur að horfa á þetta þannig að aðalpersónan sé í raun undirheimarnir,“ segir Óskar um nýju myndirnar tvær sem stefnt er á að komi út 2024 og 2025.

Svartur á leik sló rækilega í gegn þegar hún var frumsýnd árið 2012 og er ein vinsælasta og tekjuhæsta kvikmynd Íslandssögunnar en hún er byggð á samnefndri skáldsögu Stefáns Mána. Myndin fjallar um Stebba Psycho, sem á yfir höfði sér ákæru vegna slagsmála, þegar hann rekst á Tóta, æskuvin sinn frá Ólafsvík, sem býður honum aðstoð gegn því að hann komi að vinna fyrir sig. Gegnum Tóta flækist Stebbi inn í ofbeldisfullan heim eiturlyfja og glæpa.

Auglýsing

„Að láta þetta ekki snúast um Stebba eða Tóta heldur um sögu undirheimanna. Svartur á leik snerist um það þegar undirheimarnir misstu sveindóminn. Hættu að vera saklausir og urðu skipulagðari með harðari glæpum og þyngri dómum. Nú langar mig að segja söguna alla, frá því þegar undirheimarnir byrjuðu að mótast og til dagsins í dag,“ segir Óskar.

„Í framhaldsmyndinni af Svartur á leik færum við okkur í nútímann. Stóra fíkniefnamálið eins og við kölluðum málið á sínum tíma er komið í dvergstærð miðað við fíkniefnamál nútímans. Nú eru undirheimarnir miklu skipulagðari, erlendir glæpahringir vaða uppi og þetta er miklu meiri iðnaður og meiri fíkniefnaframleiðsla hér heima. Við horfðum upp á aftöku hér í Rauðagerðismálinu í fyrra.“

Þannig muni persónur myndanna þriggja tengjast en persónur líkt og Jói Faraó, sem brá fyrir í Svartur á leik, muni til að mynda gegna lykilhlutverki í fyrstu myndinni. „Þá verður aðalmaðurinn í seinni myndinni mögulega litli frændi Tóta eða einhver yngri. Þannig að við horfum á þetta sem þríleik þar sem við erum búnir að gera miðjumyndina. Þetta er alveg eins og Star Wars sem byrjaði á kafla fjögur,“ segir Óskar.

Svartur á leik varð gríðarvinsæl og fékk alls 62.783 gesti í bíó á sínum tíma. Slík aðsókn á íslenska kvikmynd hefur ekki verið jöfnuð síðan. Sú mynd sem kemst næst henni í aðsókn síðan þá er Lof mér að falla eftir Baldvin Z, sem fékk tæplega 53 þúsund gesti 2018. Svartur á leik er jafnframt sú fimmta aðsóknarhæsta frá því formlegar mælingar hófust 1995.

Aðspurður segist Óskar vera óhræddur við að fylgja velgengni Svartur á leik loksins eftir. „Það eru liðin nokkur ár og maður er kominn með svolítið hungur. Það hefði líklega ekki verið sniðugt að fara í þetta strax, heldur leyfa þessu að malla í nokkur ár. Mér finnst líka eitthvað fallegt og rétt við það að þríleikurinn muni spanna 40-45 ár, frá upphafi níunda áratugarins til dagsins í dag. Það er eitthvað ljóðrænt við þetta.“

Auglýsing

læk

Ummmmm...

Instagram