Táfýlan sem stoppaði sprengju

Boeing 767 flugvél lenti óvænt á Boston flugvelli þann 22. desember árið 2001. Þegar dyrnar opnuðust streymdu fólk og flugliðar út, lögreglumenn fóru inn. Einn farþeginn fór ekki út af sjálfsdáðum. Sá var ólaður saman með plasthandjárnum, sætisbeltum, buxnabeltum og heyrnartólasnúrum.

Hinum tuttugu ára gamla Richard Reid hafði mistekist að granda flugi númer 63 frá París til Miami í Flórída. Ástæðurnar eru margar og ein af þeim er táfýla.

ÖFGAMAÐUR ÞJÁLFAÐUR Í AFGANISTAN

Richard Reid fæddist í Bromley í London árið 1973. Hann var smáglæpamaður sem sat í fangelsi oftar en ekki, hér og hvar í Bretlandi. Faðir hans var af svipuðu bergi brotinn og Reid gekk ungur til liðs við gengi þar sem hann framkvæmdi eignaspjöll og smáþjófnaði.

Árið 1992 var hann fangelsaður í þrjú ár. Á þeim tíma snerist hann til Múhameðstrúar.

Nýliðasafnarar Al-Qaeda tóku eftir Reid í Finsbury Park moskunni í London stuttu fyrir aldamót. Reid var nærri því tveir metrar á hæð og því eftirtektarverður. Þeir sannfærðu Reid um að hann gæti framkvæmt stórfenglega hluti í þágu samtakanna og trúarinnar og hann var í tvö ár í Pakistan og Afganistan í þjálfun.

Ýmsir hryðjuverkamenn og áhrifamenn öfgahliðarinnar umgengust Reid og fylltu hann af hatursfullum boðskap, þá helst Abu Hamza al-Masri, imaminn í Finsbury Park moskunni á þeim tíma.

Hann, ásamt öðrum vongóðum hryðjuverkamanni, fékk í hendur skó með földu sprengiefni og skipað að fara í flug til Bandaríkjanna frá Evrópu. Restin skýrði sig ef til vill sjálf.

EKKI HLEYPT UM BORÐ

Reid eyddi einhverjum tíma í Frakklandi áður en hann keypti sér flugmiða til Miami. Þann 21. desember fór hann í gegnum öryggissvæðið, án farangurs, fámáll og á alla mögulega kanta, grunsamlegur. Öryggisfulltrúar flugvallarins tóku hann sérstaklega til hliðar, þennan hávaxna og ógnandi mann, og yfirheyrðu varðandi áætlanir sínar til Bandaríkjanna.

Hann svaraði spurningunum ýmist loðið eða ekki. Þeir hugsuðu sig ekki um og neituðu manninum í flugið. Hann fékk í staðinn miða fyrir flug næsta dag.

Þetta er ef til vill ein af stærstu ástæðum þess að honum mistókst að sprengja flugvél úr loftinu með sér innanborðs. Það bætist ein ástæða við.

Daginn eftir fór flug númer 63 frá American Airlines í loftið. Búið var að reiða fram mat fyrir farþega þegar einhver kvartaði yfir reyklykt til flugþjóns. Blátt bann við reykingum í flugvélum var enn nokkuð nýtt af nálinni svo að það hvarflaði ekki annað að flugþjóninum Hermis Moutardier að einhver væri að reyna að kveikja sér í sígarettu.

Hún kom að stóra manninum með síða hárið og svarta skeggið sem var í miðjum klíðum að kveikja í eldspýtu. Hún tjáði honum að reykingar væru bannaðar í fluginu, það væri nýtt af nálinni. Stóri maðurinn lofaði að hætta.

Hann gerði það þó ekki. Richard Reid beygði sig þess í stað fram til að fela betur eldleikinn. Ekkert gekk. Þráðurinn sem fór í sprengiefnið var ekki að virka. Moutardier gekk aftur að Reid og teygði sig til hans. Hann lítur upp og kveikir á eldspýtu í flýti. Einhver horfir á skóna hans sem eru allt í einu með opinn sóla.

Þarna voru hryðjuverkaárásirnar á Tvíburaturnana ferskar í minni. Nógu grunsamlegur var maðurinn fyrir, en sú staðreynd að hann var að reyna að kveikja í skóm sínum vakti ugg, óhug og reiði á meðal farþega. Það tók nokkra til en Reid var yfirbugaður og ólaður niður með hverju sem til fannst í flugvélinni. Hann var deyfður og flugvélinni fylgt rakleiðis til Boston.

FÓTASVITI OG RIGNING

Það eru nokkrar ástæður fyrir því að rúmlega 200 manns komust lífs af úr flugi númer 63. Sprengjan var fáguð og hefði vel getað sprengt nokkuð stóran bita úr flugvélinni sem hefði umsvifalaust hrapað til jarðar.

Hins vegar var kveikurinn og annað efni í sprengjunni rennblautt. Ástæðan var fótasviti og annar vökvi sem komist hefur fyrir í sólanum.

Það hefur ekki verið þægileg tilfinning fyrir Reid að vera neitað um borð deginum áður. Kvíðinn hefur aukið á svitann.

Hann játaði tilræðið og hlaut þrjá lífstíðardóma án möguleika á reynslulausn. Hann situr enn þann dag í dag í einu öruggasta fangelsi Bandaríkjanna, ADX Florence í Colorado fylki Bandaríkjanna. Hann er þar í föruneyti með mörgum af frægustu hryðjuverka- og glæpamönnum heims. Nokkrir þekktir eru meðal annars El Chapo, Theodore Kaczynski og Dzokhar Tsarnaev.

Auglýsing

læk

Instagram