Úða vökva yfir sprengiefnið

Lögreglan á Suðurnesjum þurfti í dag að grípa til rýmingaraðgerða vegna gamals sprengiefnis sem fannst í gámi á iðnaðarsvæði við íbúðarhverfi í Njarðvík. Var þessi rýming öryggisráðstöfun til að tryggja öryggi íbúa sem búa á nálægum svæðum.

„Staðan er þannig að verið er að úða sérstökum vökva yfir sprengiefnið sem gerir það óvirkt fyrir flutning. Aðgerðin er tímafrek og ekki er víst hvenær aðgerðum verður lokið og íbúar innan hættusvæðis geta snúið aftur heim.

En við viljum vekja athygli á því að það er engin hætta á ferðum og biðjum við fólk um að halda ró sinni og virða þessar öryggisráðstafanir sem búið er að gera.

Við biðjum fólk um að vera jákvætt og hjálpa okkur bara með þetta. Eftir að búið verður að tryggja sprengiefnið verður það flutt burt og eytt og má búast við að íbúar verði varir við sprengingar er það verður gert,“ segir í tilkynningu frá lögreglunni á Suðurnesjum nú á sjöunda tímanum í kvöld.

Það má sjá blá blikkandi ljós víða um Njarðvík nú í kvöld þar sem götum er lokað til öryggis.

Þetta kom fram á vef Víkurfrétta.

Auglýsing

læk

Instagram