Vilja gera tölvuleikjaspilun að skipulögðu íþróttastarfi:,,Getur komið foreldrum spánskt fyrir sjónir“

Auglýsing

Foreldrar þurfa að sýna tölvuleikjum barna sinna áhuga. Ef þeir ætla að ná til barnanna og vinna með þeim þá verða þeir að skilja um hvað þau eru að tala, segir sérfræðingur.

Hjá ársgömlum Rafíþróttasamtökum Íslands er markmiðið að færa tölvurnar út úr myrkvuðum unglingaherbergjum og gera tölvuleikjaspilun að skipulögðu starfi innan íþróttafélaga.

„Við erum núna komin með eitthvað áhugamál í samfélaginu sem að níutíu prósent af krökkum eiga vikulegan snertiflöt við og þetta er eitt af fáum áhugamálum sem við bjóðum ekki, eða höfum ekki í gegnum tíðina, boðið upp á skipulegar æfingar og skipulagt starf í kringum,“ segir Ólafur Hrafn Steinarsson, formaður Rafíþróttasamtaka Íslands.

Nú hefur orðið breyting á. Ármann, Fylkir, KR og FH hafa nú þegar stofnað sérstakar rafíþróttadeildir. Hjá Ármanni æfa á bilinu þrjátíu til fjörutíu börn rafíþróttir tvisvar í viku.

Auglýsing

Ólafur segir að segir að ákveðin dómsdagssýn hafi verið máluð upp sem valdi því að margir foreldrar séu yfir sig áhyggjufullir, jafnvel þegar ekkert vandamál sé til staðar. En vandamálin geta að sjálfsögðu verið til staðar.

„Mínir kannski öfgafyllstu skjólstæðingar geta verið vel rúmlega hundrað klukkutíma fyrir framan skjáinn á viku. Við erum með einstaklinga sem að gera jafnvel ekkert annað. Það er hrikalegt. Þeir þrífa sig ekki, þeir fara ekki á klósettið, þeir tala ekki við neinn nema það sé í gegnum skjáinn. Þeir hunsa foreldra sína og fjölskyldu. Það getur verið mjög, mjög slæmt,“ segir Eyjólfur Örn Jónsson sálfræðingur.

Hann segir að þetta séu mjög gjarnan strákar. „Þetta er minnihlutahópur einstaklinga sem á við vandamál að stríða, sem líður illa og tínist einhvern veginn í tengslum við tölvuna,“ segir Eyjólfur Örn.

„Þetta kemur mörgum foreldrum svolítið spánskt fyrir sjónir fyrst. Á ég að borga fyrir það að barnið mitt spili meiri tölvuleiki?“ segir Ólafur Hrafn. En fyrir suma, getur starf sem þetta verið einmitt það sem vantaði.

„Sem foreldri þá vill maður náttúrulega að börnin séu í einhverjum hóp, samsami sig með einhverjum og rækti áhugamálin sín. Svo eru þau bara jafn ólík og þau eru mörg. Við erum búin að prófa ýmislegt með þessum yngsta og hann hefur bara ekki fundið sig,“ segir Hulda Sólveig Jóhannsdóttir, móðir iðkanda.

„Í staðinn fyrir að vera einn inni í tölvunni, að spila við einhvern úti í heimi, þá er hann hér í hóp með krökkum sem hafa sömu áhugamál. Þannig að af hverju ekki að æfa þá þetta og styðja þá barnið í því sem það hefur áhuga á?“

Þetta kom fram á vef Rúv.

Auglýsing

læk

Ummmmm...

Instagram