Yfir 100 hross fórust í óveðrinu

„Nú liggur fyrir að ríflega 100 hross fórust í hamfaraveðrinu sem gekk yfir Norðurland vestra dagana 10.-12. desember 2019. Þetta eru mestu afföll á hrossum í áratugi og svarar til um 0,5% þeirra 20.000 hrossa sem ætla má að hafi verið á útigangi á þessu landssvæði,“ segir á heimasíðu MAST.

„Algengast var að hross hefði hrakið undan veðri í skurði, girðingar eða aðrar hættur en einnig fennti hross sem stóðu í skjóli, þ.m.t. hross sem rekin höfðu verið sérstaklega í skjól og gefið þar. Dæmi voru um tveggja metra snjódýpt niður á hræin, en gríðarlegir skaflar mynduðust hvar sem skjól var að finna. Almennt séð var harðara á hrossum á jörðum nærri ströndinni á meðan hross sem stóðu hærra í landinu sluppu mun betur, líklega vegna þess að þar var kaldara og ekki hlóðst á þau ís með sama hætti.“

Þar segir einnig að hrossin sem fórust hafi verið á öllum aldri þótt elstu og yngstu aldurshóparnir hafi orðið verst úti í óveðrinu.

Auglýsing

læk

Instagram