„Fáránlegt að láta vilyrði ráðast af kynjakvótum“

Leikstjórinn Friðrik Þór Friðriksson er ekki hrifinn af hugmyndum um kynjakvóta í kvikmyndagerð. Engin kona var leikstjóri, handritshöfundur, kvikmyndatökumaður eða höfundur tónlistar í kvikmynd í fullri lengd á síðasta ári. Dögg Mósesdóttir, formaður Wift, samtaka kvenna í sjónvarpi og kvikmyndum, segir stöðuna vandræðalega og telur lausnina geta falist í því að setja á kynjakvóta.

Í samtali við Vísi segir Friðrik Þór að hallað hafi á konur í gegnum tíðina en að það hafi verið lagað talsvert á undanförnum ár.

Það er algjörlega fáránlegt að láta vilyrði úr Kvikmyndamiðstöð ráðast af kynjakvótum. Þetta verður að fara eftir gæðum verkefnanna fyrst og fremst.

Hann segir á Vísi að kröfugerðin sé á fölskum forsendum. „Þær eru búnar að taka yfir, þær eru með öll vilyrðin á þessu ári. Það er bara stress síðan í hitteðfyrra. Þetta var lagað mikið.“

Í Fréttablaðinu á dögunum kom fram að ef litið er til allra verka við kvikmyndagerð á síðasta ári þá voru karlar 73% þeirra sem störfuðu að kvikmyndum og aðeins 27% konur. Þá kemur fram að konur veljast fremur í aukahlutverk og starfa við búninga og smink en karlar við framleiðslu, leikstjórn og kvikmyndatöku.

Dögg Mósesdóttir sagði í Fréttablaðinu þörf á róttækum breytingum til að jafna hlutföll kynja í kvikmyndagerð og telur lausnina geta falist í kynjakvóta.

Þetta er mjög vandræðaleg staða fyrir íslenska kvikmyndagerð. Til dæmis áttum við að senda eina íslenska konu sem hafði leikstýrt kvikmynd í fullri lengd á síðustu árum á kvikmyndahátíðina Nordisk Panorama. Það var engin kona sem hafði lokið mynd á árinu og því varð úr að Benedikt Erlingsson var sendur á hátíðina. Það finnst engum þetta jákvætt.

Hún segir að næsta skref sé að fá karlana í lið og bendir á að þetta sé ekki einkamál kvenna.

Auglýsing

læk

Instagram