Lögregluaðgerð stendur nú yfir á Edition hótelinu í miðborg Reykjavíkur vegna alvarlegs atviks sem átti sér stað snemma í morgun. Samkvæmt heimildum DV er grunur um að kona hafi orðið tveimur konum að bana, en lögregla hefur ekki staðfest þessar upplýsingar.
Yfirlögregluþjónn hjá miðlægri rannsóknardeild, Elín Agnes Eide Kristínardóttir, segir í samtali við DV að málið sé á frumstigi og lögregla sé enn að afla upplýsinga. Hún segist hvorki geta staðfest manndráp né mannslát að svo stöddu.
Sérsveit kölluð út – gestum skipað að halda sig inni
Aðgerðir lögreglu hafa að mestu farið fram í bílakjallara hótelsins. Á vettvangi eru bæði ómerktir lögreglubílar og lögreglumenn á mótorhjólum, auk bíls frá útfararstofu. Einnig hafa fjórir sjúkrabílar og bíll frá slökkviliði verið sendir á staðinn.
Sérsveit ríkislögreglustjóra var kölluð til í upphafi aðgerðar en málið er nú alfarið í höndum Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Ein hæð hótelsins hefur verið lokuð og gestum sagt að halda sig inni á herbergjum sínum.
Starfsfólk Edition hótelsins er samkvæmt heimildum DV í miklu uppnámi vegna málsins.
Málið er í rannsókn og verður fréttin uppfærð eftir því sem frekari upplýsingar berast.
Heimild: DV.is