Hin albanska Xhulia Pepoj kom hingað til lands sem flóttamaður árið 2015 með það að markmiði að bjarga syni sínum Kevi sem er langveikur. Hún kom ásamt eiginmanni sínum og tveimur börnum. Fjölskyldan hefur nú sest að sér á landi og vinnur að því þessa dagana að stofna ræstingafyrirtæki í samvinnu við leikkonuna Önnu Svövu Knútsdóttur.
Sjá einnig: Albönsku fjölskyldurnar tvær fá ríkisborgararétt: „Nú eru þau Íslendingar“
Anna Svava sem kynntist Xhuliu áður en hún fékk ríkisborgararétt hér á landi segir í viðtali við Bítið á Bylgjunni í morgun að hún ætli að aðstoða Xhuliu við að koma fyrirtækinu af stað. „Hún er ekki með þetta tengslanet sem við erum með og þar kem ég sterkt inn,“ sagði Anna Svava í Bítinu í morgun.
Svo ætlum við líka að hjálpa henni með startkostnað.
Það muna eflaust margir eftir hjónunum sem kom hingað til lands á flótta frá Albaníu í lok árs 2015. Með í för voru tvö börn, annað þeirra var hinn þriggja ára Kevi sem glímdi við veikindi. Fjölskyldunni var fyrst um sinn synjað um hæli og vísað úr landi. Alþingi veitti þeim svo ríkisborgararétt í byrjun árs 2016. Þau hafa búið hér á landi síðan.
Anna Svava sagði fyrst frá samstarfinu í færslu á Facebook þar sem hún óskaði t.d. eftir viðskiptavinum. Viðbrögðin létu ekki á sér standa. „Þetta gerðist svo hratt, ég setti Facebook-status og hún er nú þegar búin að fá tvö stór fyrirtæki. Þannig að núna þurfum við bara að fara að ráða fólk,“ sagði Anna í samtali við Bítið.
Viðtalið við Önnu Svövu má heyra í heild hér.