Annar bandarískur kleinuhringjarisi á leiðinni til landsins, Krispy Kreme til Íslands

Bandaríski kleinuhringjarisinn Krispy Kreme er á leiðinni til landsins, samkvæmt heimildum Nútímans. Óvíst er hvenær fyrsti staðurinn opnar en svo virðist sem Hagar séu á bakvið komu Krispy Kreme til Íslands.

Krispy Kreme var stofnað í Bandaríkjunum árið 1937 og er helsti samkeppnisaðili Dunkin’ Donuts, sem opnaði hér á landi í fyrra. Samkvæmt heimildum Nútímans er byrjað að undirbúa opnun Krispy Kreme hér á landi en í sumar voru íslenskir starfsmenn sendir í sérstakar þjálfunarbúðum hjá Krispy Kreme í Skotlandi.

Nútíminn hefur ekki fengið staðfest hver er á bakvið opnun Krispy Kreme á Íslandi en Hagar skráðu hins vegar lénið krispykreme.is í maí á þessu ári, samkvæmt uppflettingu á vef Isnic.

Hagar reka meðal annars Bónus og Hagkaup og virðast því vera á leiðinni í kleinuhringjastríð við annan risa á markaði — félagið á bakvið 10-11 stendur að baki opnun Dunkin’ Donuts á Íslandi og stefnir á að opna 16 staði hér á landi.

Ekki náðist í Finn Árnason, forstjóra Haga, við vinnslu fréttarinnar.

Auglýsing

læk

Instagram