Árásarmaðurinn á samkunduhús gyðinga var laus gegn tryggingu vegna nauðgunarákæru

Jihad Al-Shamie, 35 ára, sem réðist á og myrti fólk við samkunduhús gyðinga í Crumpsall hverfinu í Manchester á fimmtudag, var laus gegn tryggingu eftir nauðgunarákæru þegar árásin átti sér stað.

Þetta staðfestir lögreglan í samtali við BBC.

Auglýsing

Al-Shamie ók bifreið sinni á vegfarendur fyrir utan samkunduhúsið áður en hann hóf að stinga fólk með hnífi.

Hann var síðar skotinn til bana af lögreglu.

Þeir sem létust í árásinni voru Adrian Daulby, 53 ára, og Melvin Cravitz, 66 ára öryggisvörður.

Þrír eru enn á sjúkrahúsi, þar á meðal Yoni Finlay, sem var skotinn af lögreglu er hann reyndi að stöðva árásarmanninn.

„Dó hetjudauða við að bjarga öðrum“

Aðstandendur Adrian Daulby lýsa honum sem hetju sem lést við að koma öðrum til bjargar.

Lögregla segir meiðsli Daulbys hugsanlega hafa stafað af aðgerðum lögreglunnar: „Það getur verið að dauðsfallið hafi orðið vegna ófyrirséðrar afleiðingar þeirrar aðgerða taldar voru nauðsynlegar á vettvangi,“ segir í yfirlýsingu.

Áhrif öfgakenndrar hugmyndafræði

Sérfræðingar hjá bresku hryðjuverkadeildinni segja nú að Al-Shamie kunni að hafa verið undir áhrifum öfgaislamískrar hugmyndafræði.

Sex manns hafa verið handteknir í tengslum við málið og rannsókn á tengslaneti árásarmannsins stendur yfir.

„Ég sá illsku“

Rabbíinn Daniel Walker, sem stóð fyrir bænastund í samkunduhúsinu þegar árásin hófst, lýsti árásarmanninum sem „fullum af hatri“.

„Þetta var illska, tær illska. Hann reyndi allt sem hann gat til að ryðjast inn og myrða fólk,“ sagði Walker í samtali við BBC.

Reiði blossar upp og stjórnmálamenn gagnrýndir

Á samstöðuvöku fyrir fórnarlömbin var varaformaður Verkamannaflokksins, David Lammy, húðskammaður af viðstöddum sem hrópuðu „Shame on you!“ þegar hann steig í pontu.

Lammy reyndi að róa hópinn niður með orðunum: „Við stöndum með gyðingasamfélaginu.“

Í kvöld var haldin mínútu þögn fyrir fórnarlömb árásarinnar á kvennaleik Manchester United og Chelsea í úrvalsdeildinni.

Þá hafa bæði United og City sent frá sér samúðaryfirlýsingar.

Auglýsing

læk

Auglýsing

Fréttir

Auglýsing