Ástin hjálpar Bjarka í bardaga í London: „Það stoppar mig enginn á meðan ég er í þessum ham“

Bardagakappinn Bjarki Þór Pálsson lætur ástina veita sér kraftinn í bardaga í London á morgun. Bjarki Þór bað um hönd kærustunnar sinnar á dögunum og ætlar að verja léttvigtarmeistarabelti FightStar-samtakanna.

Tveir Bjarkar berjast á FightStar Championship 13 bardagakvöldinu í London á morgun. Bjarki Þór mætir Steve O’Keeffe í aðalbardagakvöldsins, þar sem léttvigtarmeistarabeltið er undir, og Bjarki „The Kid“ Ómarsson sem mætir Mehmuhd Raza í fyrsta atvinnumannabardaganum sínum.

Bjarki Þór segist aldrei hafa verið ferskari eftir frábærar æfingabúðir. „Það er stutt liðið frá síðasta bardaga og ég fór næstum bara beint aftur að gera mig kláran til að berjast aftur að honum loknum,“ segir hann.

Fyrst fór ég þó til Valencia ásamt fjölskyldunni minni í vikuferð. Kærastan mín er þar í dýralæknanámi og ég nýtti ferðina vel. Ég kom henni í opna skjöldu, skellti mér á skeljarnar og bað hennar.

Það fylgir sögunni að kærastan sagði „já“ og Bjarki segir að jákvæð orka og hamingja drífi hann áfram þessa dagana. „Ekkert færir manni meiri kraft en ástin og það stoppar mig enginn á meðan ég er í þessum ham.“

Bjarki segir að Steve sé alvöruandstæðingur. „Þegar ég sýni fram á að ég get sigrað hann þá er ég jafnframt að sýna stóru samböndunum, UFC og Bellator, að ég er algjörlega tilbúinn að stíga inn á stóra sviðið,“ segir hann.

„Ég er með svo frábært lið í kringum mig. Gæti ekki verið betur settur með þjálfara og æfingafélaga. Gunnar Nelson er búinn að hjálpa mér mikið og við erum búnir að æfa talsvert saman undangengnar vikur. Ég er alltaf að bæta mig og ég þori að lofa að ég mun berjast minn besta bardaga frá upphafi á morgun.”

Hinn Bjarkinn, Bjarki Ómarsson, segist vera búinn að bíða lengi eftir tækifærinu. „Ég er búinn að gera mig kláran í bardaga þrisvar sinnum undangengið árið en svo hefur bara alltaf eitthvað leiðinlegt komið uppá á síðustu stundu,“ segir hann.

„Ég búinn að vera óheppinn með meiðsli og svo hef ég líka lent í því að andstæðingar mínir dregið sig úr keppni. Það má því segja að ég sé glorhungraður og ég get bara varla lýst því hvað ég glaður með það að þessi bardagi sé að verða að veruleika.“

Þrír aðrir íslendingar berjast á morgun. Akureyringurinn Ingþór Örn Valdimarsson snýr aftur í búrið eftir 10 ára hlé og fer í sinn annan atvinnubardaga. Bjartur Guðlaugsson heldur áfram að klifra upp metorðastigann og fer í sinn sjötta áhugamannabardaga og liðsfélagi hans úr Mjölni, Jeremy Aclipen þreytir frumraun sína. Gunnar Nelson verður með drengjunum í för og verður í horninu þeirra á laugardaginn.

Hægt verður að nálgast straum í HD gæðum gegn vægu gjaldi á www.mmatv.co.uk. Jafnframt verður hægt að horfa á útsendingar frá bardagakvöldinu í Drukkstofu Óðins í Mjölnishöllinni, Öskjuhlíð og á Gullöldinni, Grafarvogi. Viðburðurinn hefst klukkan 18 annað kvöld.

Auglýsing

læk

Instagram