Auglýsing

Atkvæðagreiðslur um verkföll í átta skólum

Félagsmenn aðildarfélaga KÍ í fjórum leikskólum, þremur grunnskólum og einum framhaldsskóla greiða atkvæði um verkföll sem hefjast eiga í lok mánaðar. Atkvæðagreiðslurnar hófust á hádegi í dag. Samninganefndir Félags framhaldsskólakennara (FF), Félags grunnskólakennara (FG), Félags leikskólakennara (FL), Félags stjórnenda í framhaldsskólum (FS) og Skólastjórafélags Íslands (SÍ) hafa ákveðið að hefja atkvæðagreiðslu um boðun verkfalla í átta skólum.

Frá þessu er greint á vef Kennarasambands Íslands.

Áformað er að verkföll í þessum átta skólum hefjist á miðnætti 29. október næstkomandi, eða klukkan 00:01. Verkföll verða tímabundin í grunnskólunum og í framhaldsskólanum en í leikskólum verður boðað til ótímabundinna verkfalla.

Atkvæðagreiðslur um verkföll hófust á hádegi í dag. Aðgerðirnar ná til félagsmanna aðildarfélaga Kennarasambandsins sem starfa í skólunum átta og taka laun samkvæmt kjarasamningum KÍ. Atkvæðagreiðslurnar standa til hádegis á fimmtudag, 10. október.

Kjararadeilan hjá ríkissáttasemjara

Kjaradeila aðildarfélaga KÍ sem semja við sveitarfélögin liggur á borði ríkissáttasemjara. Samband íslenskra sveitarfélaga vísaði deilunni til embættis ríkissáttasemjara 24. september síðastliðinn. Kjarasamningar aðildarfélaganna sem semja við sveitarfélögin runnu út 31. maí síðastliðinn.

Félög framhaldsskólans, FF og FS, vísuðu sinni kjaradeilu til ríkissáttasemjara 26. september síðastliðinn en þeirra samningsaðili er ríkið. FF og FS hafa verið samningslaus síðan 31. mars síðastliðinn.

Aðildarfélög Kennarasambandsins hafa skipað eina viðræðunefnd. Viðræðunefndin er skipuð formönnum aðildarfélaga KÍ ásamt formanni Kennarasambandsins.

Ríkissáttasemjari boðaði samningsaðila til fundar í gær. Næsti fundur hefur verið boðaður á morgun.

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing